Á bláþræði

Myndin er tekin sl. sunnudag þar sem Kröfluína 1 þverar Eyjafjörð rétt sunnan við Akureyarflugvöll. …
Myndin er tekin sl. sunnudag þar sem Kröfluína 1 þverar Eyjafjörð rétt sunnan við Akureyarflugvöll. Myndi/Stefán Trausti Njálsson.

Njáll Trausti Friðbertsson

Síðustu dagar hafa verið erfiðir fyrir marga í eftirköstum óveðursins. Íbúar víða á Norðurlandi hafa verið án rafmagns og fjarskiptakerfis, og öryggisins sem fylgir hvoru tveggja. Við breytum ekki orðnum hlut, og það er miður að stundum þurfa áföll að dynja yfir til þess að samstaða skapist um framfarir og úrbætur. Nú er mikilvæg að ná sátt í samfélaginu um að mikilvægar framkvæmdir í flutnings- og dreifikerfi verði í fyrirrúmi og þeim flýtt eins mikið og mögulegt er.

Flutningskerfið

Annars vegar var það flutningskerfi raforku sem féll á prófinu á norðanverðu landinu, og hins vegar dreifikerfi RARIK. Kröflulína 1 sem liggur frá Kröfluvirkjun til Akureyrar bjargaði því sem bjargað varð, þannig að ekki varð rafmagnslaust á Akureyri og nágrannabyggðum, og Rangárvallalína 1 sem flutti rafmagn í Varmahlíð og sunnan verðan Skagafjörð. Kröflulinu 1 var undir miklu álagi og mikil ísing hlóðst á línuna eins og víða hefur mátt sjá á myndum. Raflínan hékk á bláþræði.

Aðrar tengingar voru rofnar vegna veðurs, s.s. Blöndulínur 1 og 2, frá Laxárvatni yfir í Varmahlíð, Fljótdalslína 2 fyrir austan, línur Landsnets eins og Sauðárkrókslína, Dalvíkurlína og allar þrjár línur frá tengivirkinu við Laxárvirkjun; Laxár-, Húsavíkur- og Kópaskerslínur. Þess má þó geta að nýja háspennulínan frá Þeistareykjum bjargaði málum að mestu á Húsavík og í næsta nágrenni.

Það á að vera sameiginlegt verkefni okkar að uppbyggingu nýrrar byggðalínu verði hraðað sem mest og verði sem fyrst byggð upp á milli Fljótsdalstöðvar og Blöndustöðvar. Í sumar hófust framkvæmdir við lagningu Kröflulinu 3 og vonir standa við að framkvæmdir við Hólasandslinu 3 hefjist á næsta ári. Nú er nýtt samráðsferli hafið á milli Landsnets og hagsmunaaðila í tengslum við lagningu Blöndulínu 3 á milli Rangárvalla við Akureyri og Blöndustöðvar og mikilvægt að viðunandi árangur náist í þeim við ræðum sem allra fyrst. Hér horfum við til mjög langrar framtíðar og mikilvægt að vel takist þannig að hægt sé að tryggja viðunandi raforkuöryggi á norðanverðu landinu. Það ætti öllum að vera það ljóst að ekki verður unað við núverandi stöðu.

Dreifikerfi RARIK

Það má þakka fyrir það að stór hluti dreifikerfis RARIK sé komið í jörð.Eins slæmt og ástandið hefur verið síðustu daga hefði getað skapast neyðarástand á stórum hluta landsins af áður óþekktum skala væri það ekki staðan. Ákvarðanir um að leggja kerfi RARIK í jörðu var tekin í kjölfar óveðra 1991 og 1995 þegar mikið tjón varð og er í dag búið að leggja 65% í jörð af 9.000 km löngu kerfi og reiknað með að allt verði komið í jörð innan 15 ára.

Í ljósi nýliðinna atburða tel ég brýnt að þeirri aðgerð verði flýtt þannig að allt dreifikerfi RARIK verði komið í jörð innan sex ára eða fyrir árslok 2025. Einnig þarf að flýta framkvæmdum við styrkingu  flutningskerfi Landsnets á öllu norðanverðu landinu.  Hefja þarf strax vinnu við að meta kostnað og hvernig hægt sé að tækla þessi verkefni á sem allra stystum tíma. Hér er um forgangsverkefni að ræða og fjármunirnir eru til reiðu.

Fjarskiptakerfin

Það kom mörgum á óvart hversu berskjölduð fjarskiptakerfin á Norðurlandi voru fyrir óveðrinu í síðustu viku. Af því tilefni beindi  ég eftirfarandi fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um öryggi fjarskipta:

1. Hvaða sveitarfélög misstu fjarskiptasamband vegna áhrifa óveðursins sem gekk yfir landið 10. og 11.desember sl. og hversu lengi?

2. Hvers eðlis voru þau áhrif á fjarskiptakerfið sem ollu mestum truflunum?

3. Til hvaða ráðstafana er raunhæft að grípa til að koma i veg fyrir slíkar truflanir í framtíðinni eða lágmarka áhrif þeirra, hverjar þeirra eru mikilvægastar og hvaða truflanir hefðu þær komið í veg fyrir í þessu tilviki?

4. Hefur það dregið úr öryggi landsmanna að stór hluti koparsímalina hefur verið aflagður?

5. Hefur verið gripið til einhverra þeirra ráðstafana sem taldar eru mikilvægastar til að auka öryggi fjarskipta, hver er staða þeirra og hvenær er þess að vænta að þeim ljúki?

Hér má bæta við að eðlilegt er að skoða skilgreint öryggishlutverk Ríkisútvarpsins í tengslum við óveðrið í síðustu viku. Hlutverk langbylgjunnar og hvaða kröfur eiga að vera á lofti vegna útsendinga á FM.

Ég tel nauðsynlegt að farið sé í ítarlega naflaskoðun á fjarskiptakerfi landsins og nauðsynlegt að skoða hvernig hægt sé að tryggja betur virkni og uppitíma þeirra.Meðal annars hef ég bent á að tryggja þurfi varaafl á farsímasendum og gera fjarskipta fyrirtækjum kleift að samnýta varaaflsbúnað. Í dag koma samkeppnislög í veg fyrir það.

Farsíminn er helsta öryggistæki almennings í dag. Við búum í dreifbýlu landi þar sem allra veðra er von því er rétt að skoða hvort öryggishagsmunir almennings eigi ekki að ráða för.

Einnig er nauðsynlegt að fá á hreint þá gagnrýni sem komið hefur fram vegna Tetra-kerfisins og þá raunverulega hvernig það kerfi stóð af sér veðrið.

Landsskipulag og þjóðaröryggi

Ég hef lengi talað fyrir því að við Íslendingar leitum í smiðju Svía þar sem grundvallarinnviðir landsins eru skilgreindir undir hugtakinu ,,Riksintresse“.  Með sama hætti vil ég skoða að svipuðu fyrirkomulagi sé komið upp hér á landi og skilgreint hvaða helstu grunninnviðir samfélagsins teljast til þjóðaröryggishagsmuna Íslands. Innviðir sem tengjast t.d. mikilvægir samgönguinnviðir, raforku- og fjarskiptakerfið.

Þeir þættir innviða sem falla undir ,,Riksintresse“ eru hluti af landskipulagi sænska ríkisins.

Í mínum huga er mikilvægt að sambærilegar heimildir séu til staðar á Íslandi og við þekkjum í nágrannalöndunum eins og í Svíþjóð til að tryggja sem best öryggi landsmanna. Meira af því síðar.

Að lokum langar mig að þakka björgunarsveitarfólki í Slysavarnafélaginu Landsbjörgu fyrir það fórnfúsa og erfiða starf sem það vann í sjálfboðavinnu í síðustu vikum í tengslum við þann veðurham sem gekk yfir landið.  Starfsmönnum RARIK, lögreglu og viðbragðsaðilum og allra þeirra sem lögðu hönd á plóg að koma okkur í gegnum þennan brimskafl. Hafið miklar þakkir fyrir.

Gleðilega hátíð, gott fólk.

Nýjast