Vikudagur kemur út í dag

Vikudagur kemur út í dag, fimmtudaginn 2. maí eftir stutt páskafrí. Í blaði vikunnar er að vanda farið um víðan völl, áhugaverðar fréttir, mannlíf, íþróttir og menning.

Meðal efnis í blaðinu:

- Framkvæmdir við hótel sem KEA hyggst reisa við Hafnarstræti 80 á Akureyri munu frestast vegna þeirrar óvissu sem uppi er í ferðaþjónustu vegna falls WOW air. Þetta segir Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA í samtali við Vikudag. Þá segist Halldór enn bjartsýnn á viðbyggingu flugstöðvar á Akureyrarflugvelli.

-Birna Baldursdóttir hefur átt magnaðan íþróttaferil, bæði sem blakari og íshokkíleikmaður. Hún rak endahnútinn á glæstan feril með því að verða Íslandsmeistari með KA í blaki á dögunum þegar liðið sigraði HK í úrslitaeinvíginu. KA varð einnig deildar-og bikarmeistari í vetur. Birna hefur nú lagt blakskóna á hilluna en óhætt er að segja að hún hætti á toppnum. Vikudagur spjallaði við Birnu.

-Framkvæmdir við byggingu stöðvarhúss Tjarnavirkjunar í Eyjafjarðarsveit eru að hefjast þessa dagana í landi Halldórsstaða. Virkjunin nýtir ca. 50 metra fall í Eyjafjarðará og mun afkasta um 1 MW í raforkuframleiðslu.

- Andrésar andar leikarnir í skíðaíþróttum fóru fram í Hlíðarfjalli við Akureyri sl. helgi. Andrésarleikarnir eru eitt stærsta skíðamót landsins með um 1000 keppendur á aldrinum 4-15 ára ár hvert. Þórir Tryggvason ljósmyndari fangaði stemmninguna í fjallinu.

-Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2019-2020 en valið var tilkynnt á Vorkomu stjórnar Akureyrarstofu á Sumardaginn fyrsta. Rætt er við Pálma í blaðinu.

-Keppni í Pepsi Max-deild kvenna og Inkasso-deild karla í knattspyrnu hefst um helgina. Vikudagur hitar upp fyrir boltann og í blaðinu er rætt við Svein Elías Jónsson fyrirliða Þórs og Halldór Jón Sigurðsson þjálfara Þórs/KA og rýnt í sumarið.

Þetta og meira til í Vikudegi í dag. Áskriftarsíminn er 460-0750 og 860 6751. Einnig er hægt senda póst á askrift@vikudagur.is

Nýjast