20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Vegleg tónleikadagskrá á Græna hattinum
Þau Svavar Knútur og Kristjana Stefáns hyggjast þeysast um landið núna í júlí á sinni árlegu sumartónleikaferð og verða á Græna hattinum annað kvöld, fimmtudagskvöldið 11. júlí og hefjast tónleikarnir kl. 21.00. „Bonnie og Clyde íslenska söngvaskáldabransans þau Kristjana og Svavar Knútur munu á ferð sinni heimsækja alla helstu landsfjórðungana og kynda undir sumarfiðringi landans með húmor og hlýju, krúttlegum kvöldsöngvum, angurværum Abbalögum og sígildum söngperlum. Þá munu sagðar sögur, lesin ljóð og klassísk íslensk kvöldvökustemmning höfð í hávegum,“ segir um tónleikana.
Á föstudeginum 12. júlí munu Beebee and the bluebirds og Beggi Smári sameina krafta sína og verða með tónleika á Græna hattinum. Talið verður í þekkta blússlagara ásamt frumsömdum lögum beggja. Hljómsveitina skipa Beggi Smári, söngur/rafmagnsgítar, Brynhildur Oddsdóttir, söngur/rafmagnsgítar, Sara Mjöll Magnúsdóttir, hljómborð, Brynjar Páll Björnsson, bassi og Ásmundur Jóhannsson, trommur. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.
Á laugardaginn 13. júlí er komið að Dimmu sem hafa verið iðnir við spilamennsku upp á síðkastið og þykir sveitin vera í fantaformi. Meðlimir sveitarinnar eru um þessar mundir að semja nýtt efni fyrir sína sjöttu breiðskífu sem áætlað er að komi út í lok ársins. Það er því ekki ólíklegt að tónleikagestir Græna hattsins fái að heyra eitthvað nýtt í bland við eldri perlur. Hljómsveitina skipa þeir Stefán Jakobsson, söngur, Ingó Geirdal, gítar, Silli Geirdal, bassi og Egill Örn Rafnsson, trommur. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.