Útfararþjónusta Akureyrar leigir líkhús og athafnarými Innheimt verður 30 þúsund króna gjald

Útfararþjónusta Akureyrar hefur tekið líkhúsið og athafnarými þess á leigu. Innheimt
verður 30 þúsu…
Útfararþjónusta Akureyrar hefur tekið líkhúsið og athafnarými þess á leigu. Innheimt verður 30 þúsund króna gjald í húsinu fyrir allt að 20 daga geymslu í húsinu.

Útfararþjónusta Akureyrar ehf hefur tekið líkhúsið á Akureyri á leigu. Félagið hefur alla tíð verið aðskilið frá opinberum rekstri kirkjugarðanna. Útfararþjónustunni er heimilt að innheimta gjald til að standa undir rekstrinum og er gert ráð fyrir að grunngjald verði um 30 þúsund krónur fyrir allt að 20 daga en hækkar eftir það.

Smári Sigurðsson framkvæmdastjóra Kirkjugarða Akureyrar, KGA segir að stjórn KGA hafi á fundi í haust ákveðið að draga sig alfarið frá rekstri líkhúss og athafnarýmis, en þá var ár liðið frá því líkhúsið var auglýst til sölu. Án árangurs.

„Niðurstaðan varð sú að hið gamalgróna fyrirtæki Útfararþjónusta Akureyrar sem hefur verið til frá því um mitt ár 1997 tæki líkhúsið á leigu. Að öðrum kosti sáum við fram á að þessi þjónusta hefði lagst af hér í samfélaginu þar sem fyrirtækið hefði ekki útfararleyfi án aðgengis að líkhúsi,“ segir Smári.

Nú er staðan breytt

Frá því líkhúsið á Naustahöfða var opnað um mitt ár 1997 og þar til 1. desember síðastliðinn hefur líkhúsið staðið öllum opið sem á hafa þurft að halda og án endurgjalds. Sama hvort heldur er útfararþjónustur vítt og breitt um landið auk lögreglu. „Nú er staðan breytt,“ segir Smári. „KGA hefur hætt rekstri gjaldfrjálsa líkhússins, Útfararþjónusta Akureyrar hefur tekið við rekstrinum og mun þar af leiðandi innheimta þjónustugjöld a.m.k. upp í hluta af rekstrargjöldum við þetta stóra og mikilvæga hús.“

Smári Sigurðsson framkvæmdastjóra Kirkjugarða Akureyrar

Smári segir að gert sé ráð fyrir grunngjaldi sem verði um 30 þúsund krónur og miðað við að lík séu þá geymd í allt að 20 daga. „Ástæðan fyrir því að gjaldið hækkar eftir 20 daga er sú að vistunartími í líkhúsi hefur verið að lengjast undanfarin misseri. Ætla má að 10 til 15 dagar ættu að vera nægur tími undir eðlilegum kringumstæðum til að koma látnum ástvinum til grafar,“ segir hann. Tæplega 200 látnir fóru um húsið á liðnu ári.

Síðasta hálmstráið

Smári rifjar upp að frá árunum eftir hrun hafi verið endalaus niðurskurður á rekstrarfé kirkjugarða. Tveir kirkjugarðar, á Akureyri og í Reykjavík hafi þráast við og haldið úti starfsemi líkhúsa án þess að hafa til þess rekstrarfé. Hagrætt hafi verið í rekstri, viðhaldi mannvirkja og endurnýjun tækjabúnaðar frestað þrátt fyrir stóraukin fjölda greftrana með tilheyrandi fjölgun fermetrar í umhirðu. „Rekstur líkhúss og athafnarýmis hjá KGA var því síðasta hálmstráið til að mæta frekari hagræðingu í rekstri,“ segir hann. Bendir einnig á að Umboðsmaður Alþingis hafi ítrekað bent ríkisvaldi á að skerpa leikreglur og setja fram skilgreiningar á því hvernig eigi að reka líkhús og hver megi gera það, en árangurinn sé enginn. „Þrátt fyrir að allar upplýsingar hafi legið fyrir í ráðuneytinu árum saman er engin sýnileg lausn á borðinu.“

Nýjast