20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Þrjár hafsins hetjur
Þessa dagana sýnir Leikfélag Akureyrar í samvinnu við leikhópinn Artik verkið Skjaldmeyjar hafsins. Höfundur verksins og leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir en hún er jafnframt einn af stofnendum leikhópsins. Hlutverkin eru þrjú, nafnlaus, en kannski má segja að elstu sjómannskonu leiki Vala Fannell, þá í miðið leikur Katrín Mist Haraldsdóttir og þá yngstu túlkar Jónína Björt Gunnarsdóttir. Tónlistarstjórn er í höndum Ármanns Einarssonar, lýsingu og tæknistjórn annast Arnþór Þórsteinsson og leikmynd og búninga hannar Sara Blöndal.
Verkið er byggt á viðtölum við sjómannskonur og unnið eftir svokallaðri „verbatim“ aðferð eða beinheimildarverk. Þá er texti viðtalanna tekinn beint, með óbreyttu orðalagi og öllum hikorðum og búinn til nýr orðréttur texti. Þó er það ekki svo þrjár konur hafi verið viðfangsefni viðtalanna, heldur er efni frá tíu sjómannskonum grunnur verksins. Fyrir vikið er ekki um eiginleg samtöl að ræða, heldur flytur hver og ein leikkona sinn texta, sína einræðu. Fyrir vikið vaknar sú spurning hvort verkið hefði alveg eins getað verið flutt í útvarpi og ekki væri nauðsyn að sjá leikkonurnar á sviði. Ég kýs þó að fullyrða að þá vantaði töluvert upp á túlkunina á sögu kvennanna þriggja eða tíu, eftir því hvernig á það er litið, því fas þeirra og sýsl dýpkar persónurnar enn frekar. Sú elsta leggur kapal, sú í miðið drekkur rauðvín og sú yngsta sýslar með ungabarn og ýmislegt því tengt sem undirstrikar enn frekar hvar þær eru staddar í lífinu.
Eins og áður sagði tala konurnar aldrei saman, öll frásögnin er einræða hverrar um sig en á hinn bóginn finnst áhorfandanum að orðunum sé beint til sín og það komst að mínu mati mjög vel til skila. Mér fannst hver um sig vera að segja mér persónulega frá ævi sinni og áföllum, draumum og daglegu amstri og mér væri sérstaklega ætlað að leggja við hlustir. Hver um sig býr líka í sínum heimi, á sinni bryggju og á sínu afmarkaða svæði.
Ég ætla ekki að rekja efni verksins hér, en allar sögurnar voru áhugaverðar og fluttu fregnir af gleði og sorg, sigrum og ósigrum. Sögum af því hvernig sjómannskonan þarf að glíma ein við ýmislegt þar sem aðrir njóta stuðnings af maka sínum. Að auki er stöðug baráttan við hafið sem getur verið óútreiknanlegt, ógnvekjandi og stórhættulegt. Óttinn við válynd veður er ávallt nálægur og að gefnu tilefni.
Allar skiluðu leikkonurnar sínum hlutverkum mjög vel. Meira að segja elsta konan sem greinilega var fædd um eða fyrir miðja síðustu öld skilaði sér vel með hjálp Völu Fannell sem er af allt annarri kynslóð. Hver um sig skilaði orðfæri og talsmáta þeirra kvenna sem þær túlkuðu mjög vel. Ég sá fyrir mér að þær hefðu haft upphaflegu frásagnirnar á bandi til að geta betur sett sig inn í frásagnarmáta þeirra sem þær voru að túlka, en það er bara ímyndun mín.
Leikmynd og búningar undirstrikuðu einsemd kvennanna. Þær voru hver á sinni bryggju eins og áður sagði og ekki var farið útfyrir þann ramma. Hafið fékk svo að birtast í glugga hjá hverri um sig og þar mátti heyra „andvarpið þúnga úr úthafsins tröllaukna lúnga.“ Önnur hljóðmynd undirstrikaði söknuðinn og óttann með lögum um missi og einsemd.
Verkið er ekki langt. Rétt um klukkutími í flutningi. Sviðsmynd einföld og búningar látlausir. En sögurnar voru áhrifamiklar og sá ég að sumir leikhúsgestir komust við og könnuðust kannski við sögurnar eða samsömuðu sig hlutverkum persónanna. Það var ekki mikið hlegið á sýningunni en líf kvennanna þriggja átti þó sínar skoplegu hliðar og sérstaklega var það persóna Katrínar sem gat slegið á létta strengi. En frásagnir þessara baráttukvenna hafsins vekja hugsanir sem fylgdu mér heim og fylgja enn.
Það er miður að sýningarnar á verkinu séu aðeins fjórar hér á Akureyri, en vonandi gefst fleirum tækifæri til að kynnast skjaldmeyjunum þremur. Ég ímynda mér að hér sé verk sem setja má upp með tiltölulega litlum tilkostnaði í öðrum samkomuhúsum en á Akureyri.
-Hólmkell Hreinsson