Sýrlendingar opna matsölustað í miðbæ Akureyrar
Hluti sýrlensku flótttamannanna sem hafa komið til Akureyrar á síðustu tveimur árum stefna nú að því að opna sölubás í göngugötu miðbæjarins þar sem boðið verður upp á sýrlenskan og tyrkneskan mat. Frá þessu er greint á vef Rúv. Þar segir að í gær hafi sprottið upp Facebook-síða undir nafninu „Aleppo kebab - Akureyri“ sem hefur fengið góð viðbrögð frá bæjarbúum.
„Við höfum verið að bjóða íslenskum vinum okkar í mat síðastliðið ár og það hefur verið vinsælt. Nú ætlum við að opna þennan stað og vonandi getum við gert það í maí,“ segir Khattab Al Mohammad, sýrlenskur flóttamaður frá Aleppo sem fer fyrir hópnum, í samtali við Rúv.
Fram kemur á Facebook að boðið verður upp á sýrlenskan og tyrkneskan skyndibita, svosem falafel, shawarma og baklava. Einnig verður í boði að fá sér salat eða hefðbundna sýrlenska rétti, eins og kebbeh.