Notaleg kvöldstund í Hofi
Erla Mist og Fjórir beinir í baki bjóða uppá notalega kvöldstund í Hömrum í Hofi, fimmtudaginn 16. maí kl. 20:00. Fluttir verða þekktir og minna þekktir djass standardar í bland við frumsamið efni eftir hljómsveitarmeðlimi.
Erla Mist Magnúsdóttir útskrifast vorið 2019 sem djass-söngkona frá Tónlistarskóla FÍH og er að stíga sín fyrstu skref í tónlistarheiminum á Íslandi. Erla hóf nám sitt í djasssöng við Tónlistarskólann á Akureyri undir leiðsögn Þórhildar Örvarsdóttur haustið 2014 en haustið 2016 hóf hún nám við Tónlistarskóla FÍH þar sem hún hefur notið leiðsagnar Guðlaugar Drafnar Ólafsdóttur.
Hljómsveitina skipa; Tumi Torfason á trompet, Kristófer Hlífar Gíslason á gítar, Arnar Jónsson á bassa og Tryggvi Þór Skarphéðinsson á trommur. Verkefnið er styrkt af Verðandi listasjóði.