Norlandair tekur við áætlun milli Húsavíkur og Reykjavíkur í næstu viku

„Viðbrögðin eru mjög góð og bókanir fara vel af stað,“ segir Arnar Friðriksson framkvæmdastjóri Norlandair á Akureyri, en félagið tekur næsta mánudag, 16. desember við áætlunarflugi milli Reykjavíkur og Húsavíkur. Fyrsta ferðin verður á miðvikudag, 18. desember. Flugið verður þjónustað af Icelandair á Reykjavíkurflugvelli
Vegagerðin samdi fyrir hönd ríkisins við flugfélagið Norlandair um að fljúga fjórar flugferðir í viku milli Húsavíkur og Reykjavíkur á tímabilinu 16. desember 2024 til 15. mars 2025. Flugleiðin er styrkt til að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á flugleiðinni á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu.
Norlandair mun nota 9 sæta Beech 200 King Air flugvél í Húsavíkurverkefnið. Félagið á þrjá slíkar vélar og er ein staðsett í Reykjavík og notuð til áætlunarflugs til Bíldudals og Gjögurs. Hinar tvær eru nýttar í sjúkraflug en Norlandair tók við sjúkraflugi á Íslandi í byrjun árs. Stefnir í að sjúkraflugin verði um 900 talsins í ár. Sjúklingar eru heldur fleiri en það. Mýflug sinnti sjúkrafluginu áður og var í því ásamt Norlandair stóran hluta janúarmánaðar.
Norlandair mun nota 9 sæta Beech 200 King Air flugvél í Húsavíkurverkefnið. Fyrsta ferðin verður miðvikudaginn 18. desember.
Tvær ferðir á milli á miðvikudögum
Tvær ferðir eru farnar á milli á miðvikudögum, snemma morguns og svo aftur síðdegis. Þá er boðið upp á flug til og frá Húsavík á föstudögum og sunnudögum. „Það var krafa um að bjóða upp á tvær ferðir einn dag og við settum þetta svona upp til að byrja með og sjáum hvernig gengur,“ segir Arnar. „Fyrirvarinn var frekar stuttur og þessi áætlun hentar vel í kringum annað flug hjá okkur.“ Vélarnar segir hann henta einkar vel til til áætlunarflugsins, en góð reynsla er af vélunum í öðru áætlunarflugi félagsins.
Mjór er mikils vísir
Arnar segir að forsvarsmenn Norðurþings, Framsýnar og fleiri sem hafa látið sig málið varða hafi haft samband og lýst yfir ánægju með að áætlunarflug sé að hefjast. „Við finnum bara fyrir mjög jákvæðum viðtökum og hlökkum til að hefja þetta verkefni,“ segir hann. „Þetta er vonandi upphafið að betri þjónustu við íbúana á svæðinu, mjór er mikils vísir, við höfum væntingar um að þetta eigi eftir að verða umfangsmeira er fram líða stundir.“
Norlandair hefur vaxið á liðnum misserum og þar starfa nú 44 starfsmenn, þar af 28 flugmenn. „Við höfum átt því láni að fagna að félagið hefur vaxið og dafnað á liðnum misserum. Það skiptir atvinnulífið hér norðan heiða verulegu máli að hér sé rekið flugfélag,“ segir Arnar.
Rekur sögu sína 50 ára aftur í tímann
Norlandair var stofnað árið 2008, en á rætur sínar að rekja til Flugfélags Norðurlands sem stofnað var á Akureyri fyrir 50 árum, árið 1974. Fyrsta Twin Otter flugvél þess var keypt árið 1975. Sú vél var notuð í áratugi bæði í áætlunar- og leiguflug innanlands og hóf einnig fljótlega flugþjónustu á Austurströnd Grænlands. Sú þjónusta hefur staðið yfir nú sleitulaust í hálfa öld því Norlandair sinnir enn áætlunarflugi þar um slóðir eða til Constable Point.
Norlandair á þrjár Twin Otter flugvélar, þrjá Beech 200 King Air vélar. Félagið heldur úti áætlunarflugi frá Akureyri til Vopnafjarðar, Þórshafnar og Grímseyjar og frá Reykjavík til Bíldudals og Gjögurs auk verkefna á Grænlandi.