20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Miðjan opnar myndlistasýningu í Safnahúsinu
Í gær miðvikudag var opnuð myndlistasýning á neðstu hæð Safnahússinns á Húsavík á vegum Miðjunnar sem er hæfing og dagþjónusta fyrir fólk með fatlanir.
Sýningin er afrakstur af námskeiði sem var haldið í fyrra undir handleiðslu Trausta Ólafssonar myndlistamanns. „Hann fór vel yfir hvernig litum er blandað, hvernig pensla er best að nota til að fá mismunandi áferðir ásamt alls konar aðferðum til að fá sem besta verkið.
Sýningin átti upphaflega að vera í mars en var frestað vegna Covid. Þó að faraldurinn sé í gangi og engin megi hittast þá setjum við samt upp sýningu. Það mega ekki vera nema 20 manns inni í einu en sýningin er á sýningarganginum fyrir framan bókasafnið,“ segir Guðrún M. Einarsdóttir, verkefnastjóri í Miðjunni í samtali við Vikublaðið og bætir við:
„Námskeiðið vakti mikla lukku en þátttakendur voru tólf talsins. Þetta eru ótrúlega flottar teikningar sem eru á sýningunni.“
Sýningin verður opin á opnunartíma bókasafnsins til 13.nóvember. Ókeypis aðgangur.