LÝSA-rokkhátíð samtalsins í Hofi

Rokkhátíð samtalsins verður í Hofi um helgina.
Rokkhátíð samtalsins verður í Hofi um helgina.

LÝSA - rokkhátíð samtalsins fer fram í Hofi um helgina, dagana 7.-8. september. LÝSA er upplýsandi hátíð þar sem hin ýmsu málefni samfélagsins verða í fyrirrúmi. Markmið hátíðarinnar er að efla samtalið um samfélagið, hvetja til upplýstrar umræðu og þannig skapa meira traust og skilning milli ólíkra aðila.

Yfir 50 félagasamtök standa fyrir 60 margvíslegum viðburðum og uppákomum á hátíðinni, má þar nefna málstofur, örerindi, smiðjur og námskeið. Þá verður til staðar umræðutorg þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að leita upplýsinga, kynna sér starfsemi og spjalla við fulltrúa stjórnmálaflokka og félagasamtaka. Landsþekktir skemmtikraftar og tónlistarmenn brjóta upp dagskránna með tónlist og uppistandi.

Fjölmörg viðfangsefni verða til umræðu á LÝSU og tengjast þau meðal annars atvinnu og vinnumarkaðinum, heilbrigði, jafnrétti, menningu og listum, stjórnmálum, vísindarannsóknum, umhverfi og menntun. Skemmtidagskráin verður heldur ekki af lakari endanum en sem dæmi má nefna að Snorri Helgason tónlistarmaður mun leika nokkur lög af nýjustu plötu sinni, og rithöfundarnir Auður Jónsdóttir, Guðmundur Andri og Hallgrímur Helgason spjalla um hlutverk rithöfunda sem samfélagsrýna. Alþýðusamband Íslands og Starfsgreinasamband Íslands standa fyrir „Pubquiz verkalýðsins“ á Götubarnum á föstudagskvöldinu, þar sem gestir geta látið reyna á kunnáttu sína um verkalýðsmál, dægurmál og ýmis önnur mál.

Ólafur Stefánsson heldur vinnustofu á laugardagsmorgninum þar sem farið er í blöndu af kundalíni, spuna og sagnamennsku, kirtan og hugleiðslu. Skáldið og rapparinn Kött Grá Pé heldur örsmiðju undir yfirskriftinni „Að skrifa og segja fokk, heilbrigð tjáskipti“ þar sem hann fjallar um skriftir, manngæsku og tjáningu í bjöguðum skilningi. Undir lok hátíðarinnar á laugardeginum ætla Saga Garðars og Dóri DNA að skemmta gestum með uppistandi og í kjölfarið mun Saga stjórna svokallaðri Diskósúpu, þar sem almenningur hjálpast að við að útbúa súpu í boði 1862, Bakarísins við brúnna og Nettó, úr mat sem annars hefði verið sóað. Gestir geta gætt sér á Diskósúpunni við tóna frá Jónasi Sig.

Nýjast