Leikfélag Húsavíkur frumsýnir Bót og betrun
Æfingar eru nú í fullum gangi hjá Leikfélagi Húsavíkur á leikritinu Bót og betrun eftir enska leikskáldið Michael Cooney. Leikritið nefnist á frummálinu Cash and delivery og er breskur farsi sem farið hefur víða og fengið mjög góða dóma. Ljósmyndari Skarps leit við á æfingu í gærkvöld og sagðist hann hafa á tilfinningunni að hér væri hreinræktuð snilld í uppsiglingu en frumsýna á verkið n.k. laugardag klukkan 16.
Verkið fjallar um Erik Swan sem grípur til þess ráðs, eftir að hann missir vinnuna, að svíkja fé út úr kerfinu með tilhæfulausum bótakröfum.
Þegar lygavefurinn er farinn að þrengja óþægilega að honum reynir hann að vinda ofan af því en það reynist flóknara en hann grunar. Þegar embættismaður frá félagsmálastofnun bankar upp á einn miður góðan veðurdag vandast málið heldur betur og hann þarf á aðstoð að halda til að spilaborgin hrynji ekki.
Tíu leikarar taka þátt í sýningunni en Benóný Valur Jakobsson fer með hlutverk Eriks Swans. Þetta er í fyrsta sinn sem Benóný stígur á svið með LH og fyrrnefndur ljósmyndari Skarps sagði að hann færi hreinlega á kostum. Benóný er líka ættaður frá Hömrum í Reykjadal og því óhætt að segja að hann sé með listina í blóðinu því þaðan hafa leikarar, söngvarar og aðrir listamenn komið á færibandi.
María Sigurðardóttir leikstýrir verkinu og fjölmargir aðrir koma að hinum ýmsu þáttum sýningarinnar, svo sem sviðsmynd, hljóði og lýsingu, búningum, förðun, hárgreiðslu, leikskrá, kaffiumsjón og fleiru.
SÝNINGAPLAN
Frumsýning: laugardag, 25. mars kl.16:00
2. sýning: þriðjudag, 28. mars kl.20:00
3. sýning: föstudag, 31. mars kl.20:00
4. sýning: laugardag, 1. apríl kl.14:00
5. sýning: þriðjudag, 4. apríl kl.20:00