Lausnamiðuð og samhent

Arna Júlía, Júlía Máney, Anna Lísa, Baldur Freyr og Tómas Orri með verðlaunagripi sína um hálsinn. Á…
Arna Júlía, Júlía Máney, Anna Lísa, Baldur Freyr og Tómas Orri með verðlaunagripi sína um hálsinn. Á myndina vantar Sóldísi Susönnuh Whiting sem einnig tók þátt. Mynd/epe.

Í síðasta mánuði  fór fram hin árlega tækni- og forritunarkeppni FIRST LEGO League í Háskólabíói, en keppnin hefur verið haldin af Háskóla Íslands frá árinu 2005, sem hluti af stærri alþjóðlegri keppni. Það eru hressir krakkar úr Borgarhólsskóla á Húsavík sem tóku þátt á fyrir húsvíska liðið en blaðamaður fór og hitti þau í vikunni á Stéttinni á Húsavík.

First Lego League er alþjóðleg Lego keppni sem nær til yfir 600.000 ungmenna í 110 löndum víða um heim. Öflug keppni sem býður börnum upp á gáskafullt en innihaldsríkt nám um leið og þeim er hjálpað til að uppgötva þá skemmtun sem hafa má af vísindum og tækni. First Lego League Challenge, sem er fyrir ungmenni á aldrinum 10-16 ára, hefur verið haldin af Háskóla Íslands síðan árið 2005.

Lego league

Arna Júlía, Sóldís Susannah, Anna Lísa, Júlía Máney og fyrir framan þau liggur Tómas Orri. Mynd/aðsend.

 

Í hverju liði eru 4-10 liðsmenn og a.m.k. einn fullorðinn leiðbeinandi. Hvert lið:

  • hannar og forritar LEGOþjark (vélmenni) sem leysir þrautir ársins í vélmennakapphlaupi.
  • tekur þátt í nýsköpunarverkefni með því að kanna og leysa raunveruleg vandamál sem tengjast viðfangsefni (þema) hvers árs.
  • byggir upp góðan liðsanda og keppnisanda.

Líkt og í fyrra var Forritunarklúbbur STEM Húsavík í samstarfi við FabLab Húsavík með lið í keppninni, að þessu sinni hið glæsilega lið Team Starfish, en þema ársins í keppninni var e. Submerged – eða neðansjávar.

Áhugasamir krakkar úr Borgarhólsskóla

Liðið samanstóð af 7 flottum nemendum úr Borgarhólsskóla, en 5 af þeim tóku þátt í keppninni sjálfri. Vegna veðurs komst liðið ekki suður og tók því þátt rafrænt og voru vélmennakapphlaup þeirra tekin upp á föstudeginum og keppnin sjálf var svo á laugadegi.

Þetta voru þau Tómas Orri Stefánsson, „Þetta er keppni sem fer fram um allan heim, við komumst ekki til Reykjavíkur vegna veðurs þannig að við gerðum þetta bara hérna í Fab labinu á Húsavík. Þetta var mjög gaman, sérstaklega að forrita,“ sagðir Tómas. Júlía Máney Fannarsdóttir sagðist vera ánægð með að hafa tekið þátt. „Það skemmtilegasta var að vera með krökkunum og vinna saman sem hópur.“ Arna Júlía Hallbjörnsdóttir tók undir með Júlíu og sagði skemmtilegast að vera með krökkunum í liðinu sínu. Anna Lísa Guðmundsdóttir, „Mér fannst skemmtilegast að vera í liði og byggja,“ sagði hún og Baldur Freyr Skarphéðinsson tók undir og sagði að honum fyndist líka skemmtilegt að byggja. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég tek þátt í svona Lego keppni og fannst skemmtilegast að leysa allar þrautirnar. Öll sögðu þau að þau gætu hugsað sér að taka þátt aftur. Einn keppenda vantaði þegar blaðamaður heimsótti þau á Stéttina en það er Sóldís Susannah Whiting.

 Vilja halda ruslatunnum bæjarins hreinum

Nýsköpunarverkefni hópsins fólst í að hanna almenningsruslatunnur sem lokast sjálfkrafa þegar 2/3 hluti þeirra er fylltur til að koma í veg fyrir að rusl fjúki úr þeim, auk þess sem sérstakur skynjari nemur þegar ruslatunna er full og sendir boð í áhaldahús. Þar kemur upp ljós sem sýnir hvaða ruslatunna er orðin full og er þá hægt að halda ruslatunnum bæjarins hreinum.

Lögðu mikið upp úr samvinnu

Lego líg

Það vakti athygli blaðamanns að öll töluðu börnin um að samveran og samvinnan hafi verið einna skemmtilegast við keppnina enda skilaði það sér í verðlaunum. Team Starfish hlaut nefnilega 3. verðlaun fyrri bestu samvinnuna. Þau sögðu jafnframt að allt sem þau lærðu í keppninni myndi nýtast þeim mjög vel í öðru námi en það er einmitt eitt af megin markmiðum í STEM kennlu.

Árlegur viðburður

Lego

Leiðbeinendur hjá krökkunum voru Bridget Burger og Guðný Ósk Agnarsdóttir. Huld Hafliðadóttir annar stofnenda STEM-Húsavík sagði að krakkarnir hafi staðið sig með stakri prýði og haft mjög gaman af. „Þetta er annað árið sem Forritunarklúbbur STEM Húsavík í samstarfi við FabLab býður upp á undirbúning og þátttöku í FIRST LEGO League keppninni en upphaflega settum við forritunarklúbbinn á fót sem hluta af aðgerðum STEM Húsavík til að auka vitneskju um STEM í samfélaginu,“ sagði Huld og bætti við að þetta væri klárlega búið að festa sig í sessi sem árlegur viðburður.

Tilgangur First Lego League (FLL) er að bjóða ungu fólki að taka þátt í spennandi verkefnum sem skapa færni í vísindum og tækni, örva nýsköpun og byggja upp lífsleiknihæfileika eins og sjálfstraust, samvinnu- og samskiptahæfni

Team Starfish mætti í tvö viðtöl við dómara, rafrænt á laugardeginum, auk þess að fylgjast með beinu streymi frá keppninni ásamt fjölskyldu og vinum á Stéttinni.

Þá hlaut Team Starfish þriðju verðlaun í flokknum Besta liðsheildin. Við óskum Team Starfish til hamingju með frábæran árangur og flott lið og hlökkum til að sjá þau spreyta sig í tækni og nýsköpun í framtíðinni.

 

 

Nýjast