Kammerkór Norðurlands heldur ferna jólatónleika

Kammerkór Norðurlands heldur ferna jólatónleika um næstu helgi og mikil eftirvænting er meðal kórfélaga fyrir þessari stóru tónleikahelgi.
Tónleikar verða haldnir í Þorgeirskirkju við Ljósavatn á laugardag kl. 15 þá í Bergi, Dalvík á laugardagskvöld kl. 20. Á sunnudag ferðast kórinn austur í Kelduhverfi og syngur í Skúlagarði kl. 14. Lokatónleikarnir verða svo í Hömrum, Hofi á sunnudagskvöld kl. 20
Á tónleikunum flytur kórinn, undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, verk eftir íslensk og erlend tónskáld. Tónleikarnir á aðventunni 2024 eru annar hluti jólatónleikaþríleiks Kammerkórs Norðurlands. Fyrsti hlutinn var fluttur á aðventunni 2023.
Tónleikagestir munu upplifa nánd og gleði jólaandans í fjölbreyttri efnisskrá jóla kórverka og má þar m.a. finna verkin Jól eftir Daníel Þorsteinsson, O Magnum Mysterium e. F. Poulenc, Vitringarnir frá Austurlöndum e. Snorra S. Birgisson, Joseph and the Angel e. Hafliða Hallgrímsson og Gabriel'sMessage í útsetningu Jim Clements.
Gæðatónleikar á hóflegu verði
Kammerkór Norðurlands hefur í yfir 25 ár verið mikilvægur hluti af menningarflóru svæðisins með metnaðarfullu tónleikahaldi sínu, samstarfsverkefnum sínum og útgáfu. Þetta verkefni kórsins, að halda jólatónleika í fyrsta sinn, og þá í þrjú ár í röð, er tónleikaverkefni sem kórinn, ásamt stjórnanda þeirra Guðmundi Óla Gunnarssyni, hefur unnið að jöfnum höndum með ákveðna stigmögnun í huga. Hér stendur til boða að sækja gæða tónleika á hóflegu verði, eitthvað sem tónlistarunnendur ættu ekki að láta framhjá sér fara.
Miðaverð er 5000 krónur og miðasala fer fram við innganginn. Posi á staðnum og einnig tekið við peningum.