Jólabjóraflóðið 2019

Sveinn Waage bjórskólakennari í skemmtilegum „lederhosen“
Sveinn Waage bjórskólakennari í skemmtilegum „lederhosen“

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem unnið var af nemum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Það er óhætt að segja að í ár sé ákveðið jólabjóraflóð en hvorki meira né minna en 78 mismunandi tegundir af jólabjór eru í boði í Vínbúðinni og er það metfjöldi. Í fyrra voru um 60 tegundir og það er athyglisvert að sjá fjölgunina miðað við það að salan á jólabjór dróst saman í fyrra. En af hverju jólabjór? Hvaðan kemur þessi þörf að gefa út sérstakan bjór fyrir jólin og hvernig gengur það ferli fyrir sig, tekur lengri tíma að brugga jólabjór miðað við aðra bjóra. Við höfðum samband við Martein Brynjólf Haraldsson hjá brugghúsinu Segull 67 og Guðjón Guðmundsson hjá Einstök Ölgerð en báðar verksmiðjurnar eru staðsettar fyrir norðan og spurðum þá út í þessi mál.

Þeir sögðu báðir að útgáfa jólabjórs sé ákveðin hefð og það sé gaman að taka þátt í þeirri hefð og gera eitthvað nýtt og öðruvísi en þeir bjórar sem þeir bjóða upp á fyrir. En fyrir ekki svo mörgum árum var jólatíðin eini tími ársins þar sem í boði var meiri fjölbreytni af bjórum.

Ferlið og einkenni

Báðir tala um að ferlið sé töluvert lengra og flóknara þegar kemur að því að brugga jólabjórinn en hjá Segli 67 hefst ferlið í ágúst en hjá Einstök tekur ferlið frá 5 vikum upp í 8 vikur. En hjá Einstök nota þeir meðal annars greninálar sem þeir tína á Akureyri.

Báðir framleiðendur eru með 2 mismunandi tegundir af jólabjór í ár en Segull 67 býður upp á nýjan tegund að þessu sinni en það er Snjókarl Mandarínuöl sem er IPA en hann er töluvert frábrugðinn hinum jólabjórnum sem er nokkuð dökkur og maltaður. Einstök býður upp á Doppelbock og Winter Ale en báðir eru þeir tiltölulega sætir bjórar. Doppelbock er í þýska Bock stílnum, sætur lager og er 6,7% að styrk en hinn bjórinn er svona klassískur jólabjór en greninálarnar eru notaðar í brugguninni á honum.

Af hverju jólabjór?

„Jólabjór er í raun og veru það eina sem við á Norðurlöndunum getum eignað okkur í bjórsögunni, sunnar í Evrópu gerðu menn sér glaðan dag með mat en drukku síðan bara sína hefðbundnu drykki á meðan við á Norðulöndunum vorum að búa til extra gott stöff um jólin og lögðum meira í drykkina,” segir Sveinn Waage bjórskólakennari og bjórsérfræðingur.

„Þetta þekkjum við með malt og appelsín og hvítöl sem dæmi, við erum með svona sér jóladrykki og það hefur verið eins með bjórinn. Jólabjór er í rauninni eldgömul hefð sem er að verða stærri og stærri. Það mætti segja að þetta sé nokkurn veginn í okkar erfðaefni að gera vel við okkur um jólin og þá sérstaklega í drykkju,” segir Sveinn.

JólaGull og Tuborg Julebryg fást á flestum börum landsins um jólin

Með hverju mælir Sveinn?

„Vinir okkar í Danmörku lögðu línurnar með jólabjór þegar þeir komu með julebryg sem hann var ekkert sérlega sexý, en hann var gerður til þess að passa fullkomlega við danskan jólamat, sem er saltað svínakjöt, en það er það sama og hefur tíðkast hér í gegnum tíðina. Þannig að þessi rauði bjór, með karamellumalti hefur svolítið verið aðalmálið í jólabjór eða ákveðinn núllpunktur. Í dag eru 80 tegundir og líklega svona 30% þeirra eru gerðir með svipuðum hætti. En það er eitt orð sem sameinar alla jólabjóra og það er orðið „meira“. Það er meira af öllu, meira áfengi, meiri lykt. Julebryg frá Tuborg er auðvitað klassískt en síðan er það Doppelbockinn frá einstök, Hurðaskellir frá Borg er algjört sælgæti og þetta úrval er mjög skemmtilegt fyrir okkur bjóráhugafólkið og ég mæli með að fólk prófi sig áfram,” sagði Sveinn Waage bjórskólakennari og sérfræðingur.

Valkvíði framundan

Það er óhætt að segja að það sé nóg í boði þegar kemur að jólabjórum og það getur verið erfitt að velja sér bjór fyrir hátíðarnar en á móti kemur getur það verið skemmtilegt vegna þess að fólk getur haft smökkunarkvöld með vinum og vandamönnum. Hins vegar gæti það verið erfitt að smakka allar 78 tegundirnar sem í boði er. Þetta er áhugaverð hefð sem skapast hefur  í kringum jólabjór  og vonandi heldur þessi þróun áfram.

GV

Nýjast