„Hver maður þarf að leika hlutverk mörg“

"Sesselía Ólafsdóttir hefur með þessari sýningu einfaldlega stimplað sig inn sem leikkona framtíðarinnar," segir m.a. í leikdómi.

Hverjum dettur í hug að setja upp leiksýningu, og það ekki ýkja langa, með brotum úr öllum verkum Williams Shakespeare eða „Sjeikspír eins og hann leggur sig“? Tja, eftir því sem næst verður komist voru það þrír blankir leikarar í henni Ameríku, þeir Long, Singer og Winfield, sem fengu þessa „klikkuðu“ hugmynd. Þeir sáu þarna skemmtilega leið til að þéna nokkra aura og slá í gegn í leiðinni.

Verkið var fyrst sýnt opinberlega á Edinborgarhátíðinni á því herrans ári 1987 og úr því hefur Leikfélag Akureyrar gert sér mat svo um munar. Með afbragðsgóða endurskoðaða og staðfærða þýðingu vandræðaskáldsins Vilhjálms B. Bragasonar að vopni er lagt til atlögu við eitt mikilvirtasta og örugglega mikilvirkasta leikskáld allra tíma.

Eftir stutt en kerknislegt spjall leikaranna þriggja, Benedikts Karls Gröndal, Jóhanns Axels Ingólfssonar og Sesselíu Ólafsdóttur (Benna, Jóa og Sessýar) hefst sýningin með því að Benni kynnir til leiks einn fremsta Sjeikspírleikara Eyjafjarðar sjálfan Arnar Jónsson. Síðan hefst drepfyndin einræða Benna sem fangar salinn eins og ekkert sé og sleppir honum ekki lausum næstu 97 mínúturnar. Það kemur fljótlega í ljós að áhorfendur eru að fylgjast með sýningu Sjeikfélags Akureyrar á öllum 37 leikverkum stórskáldsins.

Í leikritum Sjeikspírs eru, samkvæmt „áræðanlegum“ heimildum, 2016 aukapersónur, 218 aðalpersónur og 5 konur þannig að ljóst er að það er í nógu að snúast fyrir vaska en fámenna sveit leikara. Þau Benni, Jói og Sessý láta sig þó ekki muna um að kynna fyrir okkur ýmislegt um og úr æfi Williams Shakespeare áður en lengra er haldið og þótt það ruglist eitthvað til eftir að minnismiðar Jóa frá menntaskólaárunum fara í handaskolum.

Það er Sessý sem byrjar ballið og tjáir áhorfendum að öll veröldin sé leiksvið og allt fólkið leikarar og því þurfi „Hver maður [ ] að leika hlutverk mörg“. Ærslagangur í bland við kunnuglegan texta úr „Rómeó og Júlíu“ heldur áhorfendum við efnið og leikararnir augljóslega orðnir vel heitir. Þetta frægasta ástarævintýri allra tíma endar þó eitthvað snubbótt en það er ekkert til að hafa áhyggjur af því við erum fyrr en varir komin af stað í næsta stykki fyrsta harmleik Sjeikspírs „Titus Andrónikus“ hér í útfærslu sem Rómverskur mateiðsluþáttur „Hver fer í pottinn?“.  Með ótrúlegum hætti tekst að fá áhorfendur til að veltast um af hlátri þótt efnið sé hið argasta ofbeldi. Eins og Jói bendir okkur á þá er lítið við þessu að gera því Sjeikspír skrifaði þetta svona.

Í kjölfarið á Óþelló er öllum sextán gamanleikjum Sjeikspírs steypt saman í einn sem hefur fengið nafnið „Gamanleikurinn um tvo herramenn sem týnast í misgripum í hinum kátu konum í Feneyjum á Jónsmessunótt þrettándakvölds vetrarævintýris.“ Félagarnir í Sjeikfélagi Akureyrar komust þó að því að gamanleikir höfuðskáldsins eru ekki nærri því eins fyndnir og harmleikirnir. Það lá því beint við að gera sér mat úr blóðugasta verki Sjeikspírs sjálfum Makbeð eða „Skoska leikritinu“. Skosk-íslenski hreimur leikenda er óborganlegur og paródían á eitt dramatískasta verk leikhúsbókmenntanna kitlaði hláturtaugar leikhúsgesta svo um munaði. Eftir Júlíus Sesar og Antóníus og Kleópötru koma „minna þekktu verkin” en í þeim nýtir Vilhjálmur Bragason tækifærið til að senda „menningarvitum“ landsins hárfínar sneiðar.

Eftir „Sjeikleikana“ með Ríkhörðum af öllum stærðum og gerðum í einhverskonar handbolta um allt svið Samkomuhússins er bara eitt verk eftir en það er heldur ekkert smá. Sessý gerir sig líklega til að taka sviðið og heldur því fram með sannfærandi hætti að hún sé með þennan nauðsynlega X-faktor sem til þurfi til að takast á við aðalhlutverkið í Hamlet „mögulega stórkostlegasta leikriti sem skrifað hefur verið“. Vandinn er að Jói er ekki alveg sáttur við þessa tilhögun og neitar af staðfestu að leika hlutverk Ófelíu. Fyrri hluta sýningarinnar lýkur með mikilli togstreitu um það hver fái að túlkja sjálfan Hamlet Danaprins. Allt stefnir í upplausn og óefni og því ekki annað að gera en að senda leikhúsgesti fram í hlé þar sem boðið er upp á sjeikspírasjeik, fyrir fullorðna.

Eftir hlé hefst Hamflétta, upphafið að lokaþætti verksins. Atburðarásin verður ekki rakinn frekar en vert er að geta þess að undirritaður minnist þessi ekki að fjörugri uppfærsla hafi ratað á fjalir Samkomuhússins. Á lokasprettinum eru áhorfendur virkjaðir svo um munar og frábærir leikarar sýningarinnar hafa salinn í hendi sér þar til yfir lýkur. Það er ekki auðvelt að nefna einn öðrum fremur en þó verður ekki hjá því komist að minnast á eitt áhrifamesta atriði sýningarinnar þegar Sessý flytur „Hvílíkt snilldarverk er maðurinn" ræðuna.

Sesselía Ólafsdóttir hefur með þessari sýningu einfaldlega stimplað sig inn sem leikkona framtíðarinnar. Benedikt Karl Gröndal hefur fyrir löngu sýnt það og sannað að hann er með albestu gamanleikurum landsins og þeir sem fylgst hafa með leiklistarlífi við Eyjafjörð á liðnum árum vissu vel að Jóhann Axel Ingólfsson væri til alls líklegur. Það kom heldur betur í ljós í þessari sýningu.  Það er ekki amalegt fyrir Mörtu Nordal, nýjan leikhússtjóra LA, að hafa þessa hæfileikaríku og kraftmiklu leikara á sínum snærum þegar hún kemur til starfa innan skamms.

Leikstjórinn Ólafur Egil Egilsson á heiður skilinn fyrir fumlausa en sprellfjöruga sýningu. Leikmynd Brynju Björnsdóttur gerði sig ljómandi og ljósahönnun Ólafs Ágústs Stefánssonar styrkti heildaráhrif sýningarinnar svo um munaði. Það ber að þakka Jóni Páli Eyjólfssyni, fráfarandi leikhússtjóra LA, fyrir að hafa staðið fyrir því að „Sjeikspír eins og hann leggur sig“ komst á fjalirnar í Samkomuhúsinu og það með einvala liði leikara. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um uppsetninguna en þeir sem vilja njóta frábærrar skemmtunar í leikhúsi ættu að drífa sig hið fyrsta og njóta þess sem boðið er upp á.

-Ágúst Þór Árnason

 

 

Nýjast