20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hollywood í Hofi um helgina
Upptökur á tónlist við eitt stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar til þessa fer fram í Hofi á Akureyri um helgina í glænýju hljóðveri sem verður vígt við það tilefni. Um er að ræða tónlist eftir Atla Örvarsson tónskáld við myndina „Lói þú flýgur aldrei einn“, sem verður ein allra dýrasta íslenska myndin sem gerð hefur verið. Framleiðslukostnaður myndarinnar nemur rúmum milljarði króna.
Myndin er teiknimynd og er framleidd í samvinnu við belgíska myndbrellufyrirtækið Cyborn og hefur myndin þegar verið seld til 30 landa. Þetta verður sjötta kvikmyndaverkefnið sem MAk kemur að. Alls verður 60 manna sveit sem leikur tónlist Atla inn á myndina.
Fyrr í vikunni tók 34ra manna strengjasveit upp tónlist inn á nýja seríu af The Vikings sem Rúv hefur sýnt undanfarin ár. Var þar leikin tónlist eftir tónskáldið Trevor Morris. Upptökuverkefnin á vegum MAk hafa verið undir merki ACO hingað til en verða nú undir nafninu SinfoniaNord.