Hljómsveitin Roð er upprisin

Hljómsveitin Roð, f.v.: Gunnar Illugi, Guðmundur Svafarsson, Ragnar Hermannsson og Óskar Valgarðsson…
Hljómsveitin Roð, f.v.: Gunnar Illugi, Guðmundur Svafarsson, Ragnar Hermannsson og Óskar Valgarðsson. Á myndina vanta nýjasta meðlim hljómsveitarinnar, söngkonuna Heiðdísi Traustadóttur. mynd: epe

Kunnulegir, hraðir og hráir tónar berast nú frá Verbúðunum á Húsavík. Þetta eru tónar úr fortíðinni framkallaðir af goðsagnakenndu húsvísku pönkhljómsveitinni Roð sem er komin saman á ný eftir að hafa legið í dvala um langt skeið.

Roð var áberandi í norðlensku pönksenunni undir lok síðustu aldar. Roð tók þátt í Músíktilraunum Tónabæjar árið 1997, þá aðeins nokkurra mánaða gömul. Hljómsveitin komst áfram á úrslitakvöldið en þar við sat; dómaraskandall vildu einhverjir meina. Það var hljómsveitin Soðin fiðla sem bar sigur úr bítum þetta árið. Þess má geta að tvær húsvískar hljómsveitir voru í úrslitum Músíktilrauna þetta árið. Auk Roðs keppti pönk hljómsveitin Innvortis um hylli dómnefndar og var útnefnd athyglisverðasta hljómsveitin og er það kannski til marks um gróskuna í húsvísku pönksenunni á þessum tíma að tvær hljómsveitir frá svo litlu bæjarfélagi hafi náð svo langt í keppninni.

Roð var skipuð þeim Ragnari Hermannssyni og Óskari Valgarðssyni á gítar, Guðmundi Svafarssyni á bassa, Gunnari Illuga Sigurðssyni á trommur og Júlía Sigurðardóttir söng og öskraði af mikilli innlifun svo eftir var tekið. Hljómsveitin vakti mikla athygli fyrir kraftmikið „thrash“ skotið pönk og frumlega og góða textagerð. Söngur Júlíu var síðan element sem gaf hljómsveitinni þetta litla „extra“. Hljómsveitin spilaði á fjölmörgum tónleikum á árunum 1997-99 bæði norðan heiða og í Reykjavík og uppskar hálfgerðan „költ“ status í hugum margra pönkunnenda.

Plötuútgáfa á netinu

Árið 2000 gaf Örkumlútgáfan út þá merkilegu safnplötu Pönkið er dautt en sú plata var kannski til merkis um það að pönkið væri alls ekki dautt. Roð átti tvö lög á  þessari plötu, Fallbyssufóður og Formæka en þá var sveitin reyndar búin að liggja í dvala í tæpt ár.

Guðmundur Svafarsson bassaleikari Roðsins hafði tekið eftir því fyrir nokkrum árum að ýmsar hljómsveitir sem sumar hverjar eru löngu hættar eins og t.d. Þeyr, Lost og Baraflokkurinn voru að gefa út gamla efnið sitt á netinu hjá Synthadelia records. „Ég mundi eftir gömlum Roð upptökum, einhverjum 22 lögum sem við höfðum tekið upp á árunum 97‘-98‘ undir stjórn Haraldar Ringsted í Stúdíó Ofheyrn. Ég hafði samband við Synthadelia records og við kýldum þetta í gegn og gáfum út 11 lög,“ segir hann og vísar til þess að í desember 2015 gaf Roð út plötuna Draghreðjandi á netinu.

Það má segja að útgáfan sé aðdragandi þess að hljómsveitin Roð er komin saman á ný og hyggur á tónleikahald í sumar. Þær mannabreytingar hafa þó orðið að Júlía Sigurðardóttir sem er búsett í Svíþjóð er ekki með að þessu sinni en í hennar stað er komin Heiðdís Traustadóttir en hún hannaði einmitt plötuumslagið fyrir Draghreðjandi.

Hafa eiginlega engu gleymt

Roð 2017

Ég leit við í Verbúðunum á sunnudagskvöld og varð vitni að þessum sögulega viðburði þegar Roð-menn dustuðu rykið að gamla efninu sínu og hlóðu í litla einkatónleika fyrir mig. Ég er einn af þessum gömlu pönkurum sem hefur alla tíð séð Roð í goðsagnakenndum dýrðarljóma. Þetta var því afar sérstök stund fyrir mig og ljóst að Roð hefur engu gleymt... eða jú alveg slatta, en það er óðum að rifjast upp. Hljómsveitarmeðlimir voru mjög gíraðir og ánægðir að vera komnir á heimaslóðir en hljómsveitin æfði lengi vel í Verbúðunum á gullaldarárunum.

„Þetta hefur staðið til lengi,“ sagði Ragnar Hermannsson gítarleikari. „Eiginlega síðan Bibbi [í Skálmöld og Innvortis] skoraði á okkur á Innvortistónleikum í Borgarhólsskóla 2007 minnir mig. Það gerði svo útslagið þegar Gummi ræsti út núna fyrir síðustu jól.“

Það er því óhætt fyrir alla pönkunnendur að galla sig upp því Roðtónleikar eru á næsta leiti, en nákvæmar dagsetningar eiga enn eftir að koma í ljós að sögn Ragnars.

Hlusta má á Draghreðjandi með því að smella hér.

Roð 2017

 Roð 2017

Roð 2017

Nýjast