Gríðarmikil og jákvæð breyting í vetrarferðaþjónustu
„Fram undan eru óvenju góðir mánuðir í vetrarferðaþjónustunni þar sem ferðamenn komast til Akureyrar með beinu flugi frá London, Manchester, Amsterdam og Zurich. Bókanir hafa gengið vel í flugi easyJet frá Bretlandi og greinilegt að þar eru á ferðinni Bretar í jólaheimsóknum,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands
Hún segir mikið um að vera á svæðinu, allra handa jólamarkaðir og viðburðir víða í sveitum, jólasveinarnir í Dimmuborgum á sveimi, glænýtt jólatorg á Akureyri og Jólagarðurinn í Eyjafjarðarsveit dragi fólk til sín alls staðar að.
Arnheiður segir að á Norðurlandi sé mikil árstíðarsveifla ef horft sé til erlendra ferðamanna „og desember er okkar erfiðasti mánuður. Innlendi markaðurinn tekur þó vel við sér um jólin og auðvitað hefur það mikil áhrif þegar skíðasvæðin opna.“
Í lok janúar hefjast flug frá Hollandi og Sviss en þá verða hópar á ferð um Norðurland í skipulögðum ferðum þar sem áherslan er á norðurljósin, böð, fossa og vetrarævintýri af öllu tagi. „Mikil þróun hefur átt sér stað í þjónustu við þessa hópa og aukinn opnunartími sem skilar sér líka í auknum lífsgæðum til heimafólks,“ segir Arnheiður.
Arnheiður Jóhannsdóttir Markaðsstofu Norðurlands
Bagalegt að vetrarþjónustu sé ekki sinnt
Á Norðurlandi séu margar náttúruperlur sem eru stórt aðdráttarafl en því miður sé staðan enn þá sú að vetrarþjónustu er ekki sinnt þannig að staðir eins og Dettifoss og Hvítserkur séu óaðgengilegir stóran hluta ársins. Þetta kemur ekki að sök fyrir þau sem kaupa leiðsagðar ferðir á svæðið en stærsti hluti ferðamanna á þessum árstíma er á eigin vegum og missa því af þessum stærstu seglum vegna skorts á þjónustu. „Það er því enn þá margt að vinna í þróun vetrarferðaþjónustu en óhætt að segja að beina flugið hefur gjörbreytt stöðunni og við getum átt von á um 1-2000 gistinóttum á viku hér á svæðinu frá Bretlandi sem er gríðarleg mikil og jákvæð breyting á þessum árstíma,“ segir Arnheiður.