27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
„Gleði gestanna gefur mér mikið“
mth@vikubladid.is
„Áhugi ferðamanna á að koma í heimsókn hefur vaxið og það koma sífellt fleiri við,“ segir Hreinn Halldórsson alþýðulistamaður sem hefur opnað aðgengi að garði sínum við Oddeyrargötu 17 á Akureyri. Garðurinn verður opinn í allt sumar frá 10 til 21 en Hreinn hefur hannað einkagallerí í garðinum með verkum sínum. Aðgangur er ókeypis og fólki er velkomið að mynda verkin að vild.
„Fararstjórar á ferð með hópa sína um bæinn hafa gjarnan samband og falast eftir því að fá að koma og skoða. Þetta var orðið nokkuð mikið og því tók ég þá ákvörðun að auglýsta garðinn bara opinn fyrir gesti og gangandi,“ segir Hreinn og bætir við að gestir séu þegar farnir að láta sjá sig í töluverðum mæli.
Gleði gestanna gefur mér mikið
Í garðinum eru styttur af hinum ýmsu ævintýrapersónum, íslenskum og erlendum. Helstu persónur úr sígildu ævintýrunum eins og Mjallhvít og dvergarnir sjö er þar að finna sem og Þyrnirós og prinsinn, Rauðhetta og úlfurinn, Gosi, pabbi hans og kötturinn þeirra, Hrói Höttur og eyfirsku hjónakornin Helgi magri og Þórunn hyrna prýða garðinn einnig. Fyrstu styttur Hreins, Sigurður sýslumaður og Guðrún frá Lundi eiga sér líka skjólgóðan reit ásamt fleirum.Við öll verkin er stuttur texti á íslensku og ensku.
„Það gefur mér mikið að sjá gleði gestanna sem fara hér um, þeir staldra við hjá styttunum, rifja gjarnan upp ævintýri og upplifa jafnvel bernskuna þegar ævintýrin voru lesin,“ segir hann.
Uppsöfnuð þörf
Hreinn segist hafa verið við þessa iðju undanfarin 12 til 13 ár. Hann bjó í Reykjavík í 26 ár en flutti norður árið 2006 og byrjaði á að gera hús sitt upp og garðinn. „Ég byrjaði á fullu við þessa smíði þegar allt var klárt bæði úti og inni. Ætli megi ekki segja að þetta sé uppsöfnuð þörf, ég hafði enga aðstöðu fyrir sunnan til að sinna verkefnum af þessu tagi og þegar hún skapaðist og tóm gafst til hófst ég handa,“ segir hann. „Þetta er ótrúlega gaman og gefandi, mikil vinna við hverja styttu, það þarf að smíða, mála og skreyta og huga að alls kyns smáatriðum.“
Hreinn lét af störfum nú nýverið og sér fram á að aukin afköst við smíðavinnuna. „Ég mun eiga margar góðar stundir við smíðavinnuna og sé fram á að bæta enn við í garðinn. Ætli ég verið ekki fljótlega að leggja undir mig næstu garða,“ gantast hann með.
Hreinn leitar fanga víða, finnur oft ýmsa dýrgripi í verslun Hertex á Akureyri sem og í Fjölsmiðjunni en einnig hefur hann gengið fjörur og ævinlega komið heim með heilmikinn feng úr þeim ferðum. Þannig geta netadræsur orðið að lokkafullu hári komnar á fagran koll. „Það er líka töluvert um að fólk gauki alls konar munum að mér, það býður stundum poki með dóti þegar ég kem heim og ég veit ekkert hver hefur hengt hann á húninn. Ég finn fyrir miklum velvilja og þegar fólk hefur komið og skoðað sér það að ég get nýtt nánast allt,“ segir Hreinn.