Fyrsta rafíþróttamót grunnskólanna á Akureyri
Fyrsta rafíþróttamót grunnskólanna á Akureyri var haldið í Síðuskóla á dögunum. Keppt var í FIFA, NBA2K19, Rocket League og T-Rex. Nemendur úr Oddeyrarskóla, Naustaskóla, Giljaskóla, Síðuskóla og Glerárskóla öttu kappi og úr varð hin besta skemmtun, segir í fréttatilkynningu.
Úrslitin urðu eftirfarandi: Rocket League - Hafþór Orri Finnsson og Patrik Róbertsson, NBA2K19 - Almar Jón Kristinsson og Maríus Héðinsson, FIFA19 - Viktor Svavar Árnason og Aðalsteinn Máni Elmarsson, T-Rex runner - Oliwia Moranska.
Rafíþróttir er samheiti yfir skipulagða keppni í tölvuleikjum. Á síðustu 10 árum hafa vinsældir rafíþrótta vaxið mikið. Markmið Skólaleikanna er að efla rafíþróttastarf innan grunnskólanna og stuðla að heilbrigðum spilaháttum með því að styrkja jákvæða upplifun ungmenna af tölvuleikjum, draga úr einveru og hafa gaman.
„Þátttaka barna og ungmenna í félagsstarfi hefur mikið forvarnargildi og hefur mjög jákvæð áhrif á félagsfærni þeirra. Með því að skapa vettvang fyrir börn til að sinna sínum hugarefnum og æfa samskipti, samvinnu og sjálfsaga, öðlast þau færni sem getur hjálpað þeim á öllum stigum lífsins, bæði í leik og starfi,“ segir í tilkynningu.