Elí sendir frá sér nýja bók
Rithöfundurinn Elí Freysson hefur gefið út nýja bók sem nefnist Feigðarflótti. Þetta er sjötta bókin sem Elí sendir frá sér hér á landi en er þó ótengd hinum bókunum.
Í Feigðarflótta er Elí á kunnuglegum slóðum en bókin gerist í heimi þar sem heiðnu goðin, tröll, galdrar og forynjur eru raunverulegar. Systkinin Bárður og Magnhildur lifa af árás á bóndabæ, og neyðast til að leggja á fleiri daga flótta aftur heim. Á hælum þeirra eru mennskir óvinir sem og skelfilegur óvættur, og þurfa þau að beita kænsku, vopnfimi og þekkingu á hinu dulræna til að lifa af.
Bókin er 102 blaðsíður, sex kaflar og skiptast þau systkinin á að vera höfuðpersónan. „Ef vel fer núna fyrir jól ætla ég mér að skrifa framhald á næsta ári,“ segir Elí.