20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Barnamenningarhátíð á Akureyri
Barnamenningarhátíð á Akureyri er nú haldin í annað sinn en hátíðin hefst í dag, þriðjudaginn 9. apríl og stendur til sunnudagsins 14. apríl. Markmið Barnamenningarhátíðar á Akureyri er að hvetja börn og ungmenni til virkrar þátttöku í menningarstarfi og veita þeim tækifæri til að njóta lista og menningar. Sérstök áhersla er lögð á verkefni sem efla sköpunarkraftinn. Meginreglan er að aðgengi að viðburðum sé ókeypis. Í tengslum við Barnamenningarhátíðina verða tvær leiksýningar um helgina.
Á laugardaginn 13. apríl er það Fyrsta skiptið, sýning Ungmennaleikhópsins Gaflaraleikhússins en sunnudaginn 14. apríl kl. 13 er svo hinn glænýji íslenski fjölskyldusöngleikur Gallsteinar afa Gissa í uppfærslu Leikfélags Akureyrar sýndur í Samkomuhúsinu.
„Það er virkilega gaman að fá að vera þátttakandi í þessum magnaða viðburði sem Barnamenningarhátiðin okkar er,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastýra Menningarfélags Akureyrar. „Forvitnilegir og fjölbreyttir viðburðir verða á dagskránni hér í Hofi, en einnig um allan bæ, sem án efa munu auðga barnamenninguna í bænum, en einnig gera hana enn sýnilegri. Hátíðin er nefnilega tilvalinn vettvangur til þess að draga fram það sem fyrir er, en einnig vettvangur til nýsköpunar þar sem áherslan er á menningu og sköpun barna í víðasta skilningi, menningarviðburði fyrir börn og með börnum,“ segir Kristín Sóley.
Barnamenningarhátíð á Akureyri tekur mið af markmiðum Menningarstefnu Akureyrarbæjar og aðgerðaráætlun Akureyrarbæjar um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með það að markmiði að verða fyrsta barnvæna sveitarfélagið. Dagskrá Barnamenningarhátíðar er hægt að nálgast í heild sinni á vefnum barnamenning.is.