AK-Extreme um helgina: 200 vörubílaferðir af snjó í Gilið
Snjóbretta- og tónlistarhátíðin AK Extreme fer fram á Akureyri um helgina, dagana 5.-7. Apríl. Hátíðin er haldin Hlíðarfjalli og í miðbæ Akureyrar, nánar tiltekið í Gilinu, Sjallanum og Græna Hattinum.
Hápunktur AK Extreme verður Eimskips gámastökkið í Gilinu á laugardagskvöldið 7. apríl en þar koma saman færustu snjóbrettamenn Íslands ásamt erlendum keppendum þar sem þeir keppa um AK Extreme titilinn og hringinn. Mikill undirbúningur hefur staðið yfir alla vikuna vegna hátíðarinnar.
Hilmar Þór Sigurjónsson er einn af þeim sem stendur að hátíðinni og hann hefur staðið í ströngu í vikunni við undirbúning. „Það fer öll vikuna í undirbúning og þetta er hörkupúl,“ segir Hilmar í samtali við Vikudag. Veðrið er hagstætt fyrir aðstandendur mótsins en búist er við frosti næstu daga og kyngdi niður snjónum þegar blaðamaður ræddi við Hilmar. „Finnur verktaki hefur hjálpað okkur mikið en hann hefur safnað snjó í hauga víðsvegar um bæinn. Ef hann væri ekki með okkur í þessu þá væri þetta ekki hægt.“ Hilmar segir að vörubílar fari um 200 ferðir í Gilið til að flytja snjó. „Við lentum í vandræðum í fyrra vegna snjóaleysis og það var okkur dýrt, en þetta er mun betra í ár. Eins og staðan er núna er mikil snjókoma og veðurspáin er þannig að snjórinn ætti að halda.“
Markmiðið að fá fólk í bæinn
Hilmar segir eitt meginmarkmið hátíðarinnar sé að fá fólk í bæinn. „Við viljum fá sem flesta hingað til að njóta með okkur og hátíðin hefur notið gríðarlegra vinsælda. Það eru fáir snjóbretta-og vélsleðaáhugamenn sem sitja heima hjá sér þegar hátíðin fer fram. Til marks um áhugann þá höfum við aldrei verið með jafnmarga erlenda keppendur og í ár og við lentum eiginlega í vandræðum vegna þess að það var svo mikil ásókn erlendis frá. Við höfum ekki lent í því áður og þetta er lúxuvandamál.“
Hilmar Sigurjónsson fyrir framan gámana í Gilinu en þeir eru fimm á hæðina. Mynd/Þröstur Ernir
Halldór Helga snýr aftur
Alls verða fimm erlendir keppendir á snjóbrettum og tveir á skíðum. Þá munu þeir bræður Halldór og Eiríkur Helgasynir taka þátt, en þetta er í fyrsta sinn í nokkur ár sem Halldór keppir í Gámastökkinu en hann þykir einn fremsti í sínu fagi í heiminum. „Það er mjög gaman að fá Halldór aftur. Hann er stærsta nafnið í bransanum og því frábært að fá hann aftur til leiks. Hann er einnig góður vinur okkar og við viljum hafa alla með.“ Hátíðin hefst í dag, fimmtudag upp í Hlíðarfjalli með fjallabruni. Á föstudeginum heldur dagskráin áfram í Hlíðarfjalli en að á laugardagskvöldinu kl. 21:00 er komið að Eimskips-gámastökkinu en þá fyllist gjarnan Gilið af fólki.
Mikill áhugi hjá bæjarbúum
„Áhugi er gríðarlegur hjá bæjarbúum,“ segir Hilmar um Eimskips-gámastökkið. „Við erum í góðu samstarfi við lögregluna um lokanir og annað og það lýsir því ágætlega hversu mikill mannfjöldi safnast hér saman í Gilinu að við þurfum að huga að því að það verði ekki öngþveiti,“ segir Hilmar, sem verður vakinn og sofinn yfir keppninni næstu daga. „Það eru margir klukkutímar sem fara í þetta,“ segir Hilmar. Opnunarpartý AK Extreme verður haldið á Græna hattinum í kvöld, 5. Apríl. Öflug tónleikadagskrá verður í boði í Sjallanum föstudaginn 6. og laugardaginn 7. apríl en þar koma m.a. fram Aron Can, Emmsjé Gauti, JóiPé X Króli, Birnir, Úlfur Úlfur, Flóni, GDRN, KÁ-AKÁ, Young Karin, DJ SURA, Yung Nigo Drippin og fleiri.