Vilja skaffa unglingum aðstöðu til hljómsveitaræfinga
Á fundi sínum þann 25. maí sl. fól fjölskylduráð Norðurþings íþrótta- og tómstundafulltrúa og fræðslufulltrúa að gera kostnaðaráætlun og útfæra hugmyndir að rekstri úrræðis fyrir hljómsveitarstarf unglinga á Húsavík samkvæmt tillögu skólastjóra Tónlistarskóla Húsavíkur. Nú hefur sú kostnaðaráætlun verið lögð fram til kynningar og hefur ráðið fjallað um hana og hugmyndir að rekstri úrræðis fyrir hljómsveitarstarf unglinga á Húsavík. „Ráðinu líst vel á einhverskonar rekstur á slíku hljómsveitarstarfi og felur íþrótta- og tómstundafulltrúi og fræðslufulltrúa að vera í samstarfi við skólastjóra Tónlistarskóla Húsavíkur um frekari útfærslur á hugmyndinni, húsnæði og kostnaðarskiptingu,“ segir í bókun fjölskylduráðs. Í samtali við Vikublaðið segir Guðrún Ingimundardóttir skólastjóri Tónlistarskóla Húsavíkur að málið snúist um aðstöðu fyrir nemendur sem eru að læra á popp-hljóðfæri eða svo kölluð rythmísk hljóðfæri til að koma saman og æfa sig.