„Þetta var æðislegt og hvalirnir blésu þarna í bakgrunni“
Daniel Annisius frá Húsavík hefur lifað og hrærst í ferðaþjónustu alla sína starfsævi. Hann steig sín fyrstu skref á vinnumarkaði 12 ára gamall við að bera út bæklinga fyrir Gentle Giants hvalaferðir (GG) og útbúa kakó fyrir farþega. Í dag er hann aðstoðarframkvæmdastjóri og horfir yfir 20 ár hjá sama fyrirtækinu. Það eru fáir sem þekkja þróun ferðaþjónustu á Húsavík betur en Daniel.
Menntasproti atvinnulífsins
GG hlaut á dögunum viðurkenningu Samtaka atvinnulífsins: Menntasproti atvinnulífsins 2022. Einn lykilþáttur sprotans er samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu innan sem utan fyrirtækja auk nýsköpunar í fræðslu innan fyrirtækis eða í samstarfi aðra aðila.
Menntaverðlaun atvinnulífsins eru veitt á árlegum menntadegi atvinnulífsins. Þetta er í níunda sinn sem dagurinn er haldinn. Yfirskrift menntadagsins að þessu sinni var stafræn hæfni í íslensku menntakerfi og atvinnulífi.
Daniel segir að það hafi komið skemmtilega á óvart að hafa hlotið þessi verðlaun og mikill heiður. „Við vorum tilnefnd í vetur en bjuggumst aldrei við að vinna þetta, lítið fyrirtæki á landsbyggðinni. Svo fengum við símtalið um að við hefðum unnið og allir í skýjunum með það. Í greinargerðinni var farið yfir alls konar þætti og það var mat dómnefndar að við værum vel að þessu komin, að þjálfunar og menntunarmálin væru í góðum höndum,“ útskýrir hann og bætir við að númer eitt snúist þetta um þjálfun á starfsfólki GG hvalaferða en nefnir fleiri mikilvæga þætti s.s. þjálfun á starfsfólki rannsóknarseturs Háskóla Íslands sem er með aðsetur á Húsavík. „Við komum einnig að stofnun námsbrautar í Framhaldsskólanum á Húsavík. Það má heldur ekki gleyma fræðslunni sem við erum með fyrir farþega um borð í bátunum okkar. Við erum að fá farþega sem hafa kannski aldrei farið á sjó og eru að komast í kynni við náttúruna,“ segir Daniel og nefnir að farþegar fái fræðslu um borð sem þeir geti svo sett í víðara samhengi þegar heim er komið. Þá segist hann finna fyrir miklu stolti að vera partur af litlu en öflugu fyrirtæki á landsbyggðinni sem hefur metnað sem skilar sér í slíkum verðlaunum. „Og það er alltaf hægt að gera betur, starfið er í stöðugri þróun, sérstaklega með nýrri stafrænni tækni.“
Byrjaði 12 ára
Eins og fyrr segir á Daniel 20 ára starfsafmæli um þessar mundir. Fyrirtækið hét reyndar Hvalaferðir í upphafi þegar hann hóf störf en núverandi eigandi, Stefán Guðmundsson kom tveimur árum síðar inn eigendahópinn og fór strax að vinna með ímynd fyrirtækisins. Þá var nafninu meðal annars breytt í Gentle Giants hvalaferðir. „Það má eiginlega segja að Ómar bróðir minn hafi komið mér af stað í þessu en hann var búinn að vera vinna á Moby Dick. Síðan kunni ég tungumálin, ensku, þýsku og svona. Þannig að í staðinn fyrir að fara í bæjarvinnuna þá gat ég komið hingað, 12 ára gamall, að dreifa bæklingum, þrífa bátana og alls konar sem til féll. Svo var ég alltaf með í siglingunum ef það voru fleiri en 20 farþegar til að búa til kakóið,“ segir Daniel en hann starfaði í um það bil 10 ár sem leiðsögumaður og í miðasölu. Undan farin 12 ár hefur hann gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra og hefur komið náið að þróun fyrirtækisins. „Ég hef verið að sinna öllu mögulegu, allt frá bókhaldi til markaðsmálum en þau eru fjölbreytt og skemmtileg verkefnin sem til falla.“
Fann ástina á Skjálfanda
GG hvalaferðir hefur oft verið lýst sem öflugu fjölskyldu fyrirtæki. Það má með sanni segja að Daniel sé táknmynd þeirrar ímyndar því hann fann ástina í vinnunni og hefur síðan stofnað sína eigin fjölskyldu. Fjölskyldu sem varð til hjá GG hvalaferðum.
Alexia Annisius Askelöf frá Svíþjóð kom til Húsavíkur árið 2008 og hóf störf sem leiðsögumaður hjá GG. Hún og Daniel felldu hugi saman og fóru hægt og rólega að rugla saman reitum. „Síðan fluttum við til Svíþjóðar og vorum þar í námi bæði. Við fluttum heim aftur árið 2017 og eignuðumst dóttur og erum komin til að vera, alla vega í bili,“ segir Daniel og bætir við að fjölskyldunni líði vel á Húsavík.
Þrátt fyrir að hafa búið í Svíþjóð í sjö ár, var Daniel alltaf með annan fótinn hjá GG hvalaferðum. „Við komum alltaf heim á sumrin og svo var ég að vinna síðustu tvo veturna frá Svíþjóð, þannig að ég hef alltaf verið tengdur þessu.“
Giftu sig í vinnunni
Úr því að ástin kviknaði og blómstraði í vinnunni, því þá ekki að staðfesta það með því að gifta sig í vinnunni?