Strandið á Rifstanga 1968 rifjað upp
Skjalasafni Þingeyinga bárust nýlega áhugaverðar ljósmyndir frá strandi danska flutningaskipsins Hans Sif á Rifstanga á Melrakkasléttu. Skipið strandaði aðfaranótt laugardagsins 10. febrúar 1968. Áhöfninni , 11 manns, var bjargað um borð í varðskipið Þór sem flutti hana til Akureyrar. Um borð voru 800 lestir af síldarmjöli sem átti að flytja til Englands. Einar M. Jóhannesson á Húsavík keypti farminn og náði að koma honum í land að hluta til með öðrum bát en einnig með snjósleðum eftir að hafís umkringdi skipið. Farmurinn var síðan seldur til Englands og Írlands. Hans Sif náðist á flot 26. júní 1968 og var í kjölfarið selt aftur til fyrri eiganda.