„Ég er bara kona sem að skuldbatt sig til að gera eitthvað og ég stóð með sjálfri mér“
Dögg Stefánsdóttir frá Húsavík er mannauðsstjóri hjá PCC BakkiSilicon og lífsþjálfi. Hún hefur stundað líkamsrækt frá því hún var tvítug en um síðast liðna helgi tók hún þátt í Íslandsmeistaramóti í fitness sem fram fór í Hofi á Akureyri. Um kvöldið sneri hún aftur heim til Húsavíkur með Íslandsmeistaratitil í flokki 35 ára og eldri í farteskinu. Vikublaðið ræddi við Dögg í vikunni.
Vinnur með hugarfarið
Í september 2020 byrjaði Dögg í fjarnámi í Bandarískum skóla sem heitir Life Coach School þar sem hún lærði til lífsþjálfa. Hún hefur nú lokið því námi og segir það vera eina ástæðu þess að hún ákvað að keppa í fitness í ár.
„Það sem mér finnst aðal málið og er ástæðan fyrir því að ég hef verið að leggja í þetta ferðalag mitt er að ég er búin að vera í námi sem heitir lífsþjálfun. Það er maður að vinna mikið með hugarfarið og að setja sér markmið. Ég var í rauninni að keppa til að mastera það,“ segir Dögg og bætir við að hún sé að undirbúa námskeið á svæðinu. „Þar ætla ég að kenna konum að fara á eftir draumunum og ná markmiðum sínum.“
Dögg er önnur tveggja kvenna sem lokið hefur námi lífsþjálfa en hin er frænka hennar, Linda Pétursdóttir. „Það vildi svo ótrúlega til að ég fann þetta nám og svo heyrði systir mín viðtal við Lindu P. og spurði mig hvort það gæti verið að þetta væri sama nám. Ég hafði þá samband við hana og jú jú, það passaði,“ segir Dögg og hlær. Þær Linda og Dögg eru einmitt systkinabörn. „Við erum tvær á landinu sem erum lífsþjálfar og erum s.s. að vinna í prógramminu hennar Lindu með 200 konur þar sem konur eru konum bestar.“
„Við erum einmitt nýkomnar frá Texas þar sem við vorum á svona Mastermind námskeiði,“ segir Dögg og bætir við að eitt af því sem lífsþjálfinn taki fyrri sé markmiðasetning. „og að láta sig dreyma, dreyma stórt og fara á eftir draumum sínum.“
Fékk áhugann í Bandaríkjunum
Dögg var að keppa á Íslandsmóti í fitness í þriðja sinn um helgina en hún segir að í þetta sinn hafi vegferð hennar í gegn um lífsþjálfanámið verið henni innblástur til að taka þátt í þetta sinn. „Það er svona raunverulega ástæðan fyrir því að ég var að keppa núna þó ég hafi vissulega tekið þátt tvisvar áður,“ segir hún og bætir við að hún hafi alltaf stundað líkams- og heilsurækt að einhverju tagi.
„Þetta byrjaði nú bara þannig að ég fór sem aupair til Bandaríkjanna þegar ég var tvítug. Þar var bjó ég hjá fólki sem var álveg á kafi í líkams- og heilsurækt. Það var í fyrsta skipti sem ég kynntist þessum heimi. Ég man einmitt eftir því að ég var svöng fyrstu þrjá mánuðina því þau borðuðu ekkert nema kjúkling og eggjahvítur og ég vissi ekki hvert ég var kominn,“ segir Dögg og skellir upp úr.