20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Yfirbreiðslur og Sundlaug Akureyrar
„Við erum þess vel meðvituð að vatn sparast með yfirbreiðslu en okkar mat er að kostnaður við dúkakaup, aukin vinna og álag á brautarlínur minnki hagkvæmni yfirbreiðslu,“ segir Elín H. Gísladóttir forstöðumaður Sundlauga Akureyri en telur skoðunarvert að rýna í könnun sem Efla gerði fyrir Norðurorku um gildi þess að nota yfirbreiðslur yfir sundlaugar og spara þannig vatn og fjármuni.
Elín segir að yfirbreiðslur séu notaðar á sundlaugar og potta í Hrísey og Grímsey. Nýjar yfirbreiðslur hafi verið teknar í notkun í Hrísey nýverið, bæði á pott og vaðlaug. „Þar teljum við hagkvæmt að vera með yfirbreiðslur. Laugin þar er í þeirri stærð að tiltölulega einfalt er að setja dúkinn yfir og taka af og þar erum við ekki með brautarlínur.,“ segir hún og bætir við að þar sé á hverjum sólarhring lokað í tiltölulega langan tíma, þ.e. kl. 19 á kvöldin og þar til opnað er á ný kl. 15 næsta dag. Það geri að verkum að hagkvæmt sé að nota yfirbreiðslu.
Annar kostnaður vegur upp á móti
Ekki hafi hjá Sundlaug Akureyrar verið gerð ítarleg rannsókn á því hvað spara megi með yfirbreiðslum yfir laugarnar en fróðlegt væri að rýna í þau gögn sem útreikningar eru byggðir á. „Við vitum að það myndi spara heitt vatn að vera með yfirbreiðslur en annar kostnaður vegur þar upp á móti s.s. vinna og slit á brautarlínum. Yfirbreiðslurnar sjálfar eru einnig dýrar og þær þarf að endurnýja á nokkurra ára fresti,“ segir Elín.
Bendir hún einnig á önnur veigamikil atriði sem skipti máli hvað það varðar að ekki hafi verið settar upp yfirbreiðslur hjá Sundlaug Akureyrar, en þar vegi þyngst hve lengi er opið eða til kl. 21 á kvöldin og suma daga hefjist æfingar hjá Sundfélaginu Óðni kl. 05.30 á morgnana. Flotlínur séu í báðum laugum og þær þurfi að fjarlæga til að unnt sé að setja yfirbreiðsluna á. Það sé mikil vinna fólgin í því að taka þær af og setja upp á ný.
„Okkur er ókunnugt um hvort reynsla sé af yfirbreiðslu í eins stórum útilaugum og stærri laugin er í Sundlaug Akureyrar en gerum okkur grein fyrir að dúkur að þeirri stærð væri mjög þungur og erfiður í meðhöndlun,“ segir Elín.