Vistvænir bílar fá forgang
Yfirlýst markmið bæjaryfirvalda á Akureyri er að hamla eins og frekast er kostur gegn notkun mengandi jarðefnaeldsneytis og gera Akureyri þannig smám saman að fyrirmyndar umhverfisvænu samfélagi, segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ. Vistorkustæði í og við miðbæ Akureyrar hafa verið tekin í notkun. Þar má leggja ökutækjum sem eru knúin hreinum innlendum orkugjöfum, svo sem rafmagni og/eða metan, án þess að stilla bílastæðaklukkur eða óttast sektir.
Stæðin verða við Glerártorg, Ráðhús bæjarins, Skipagötu, sunnan við Bautann og við Menningarhúsið Hof. Um venjuleg klukkustæði er að ræða en þau eru þó grænmáluð og þeir sem aka vistvænum bílum og hyggjast nýta sér stæðin, þurfa að fá sérstaka límmiða hjá Vistorku til að merkja bifreiðar sínar með og forðast þar með sektir.
Verkefnið er hluti af markmiðinu um kolefnishlutlausa Akureyri. Akureyrarbær hefur á síðustu 10 árum verið virkur þátttakandi í því að gera bæinn umhverfisvænni, m.a. með því að bjóða frítt í strætó, með lagningu göngu- og hjólreiðstíga, framleiðslu metans og lífdísils og byggingu jarðgerðarstöðvar.
Vistorkustæðin eru enn eitt skref bæjarins í átt að jarðefnaeldsneytislausu samfélagi, segir ennfremur í tilkynningu.