Vísbendingar um að jarðhitakerfið á Hjalteyri sé fullnýtt

Hjalteyri - Lagning aðveituæðar til Akureyrar í ágúst 2019. Mynd: Axel Darri Þórhallsson á vefsíðu N…
Hjalteyri - Lagning aðveituæðar til Akureyrar í ágúst 2019. Mynd: Axel Darri Þórhallsson á vefsíðu Norðurorku

mth@vikubladid.is

 

Vísbendingar eru um að jarðhitakerfið á Hjalteyri sé orðið fullnýtt, en það mun að sögn Helga Jóhannessonar forstjóra Norðurorku koma betur í ljós á næstunni hvernig kerfið bregst við minnkandi dælingu. Í febrúar sl. kom fram aukið klómagn í mælingum á jarðhitavatninu. Það bendir til aukins sneflimagns úr sjó sem að líkindum kemur gegnum Strýturnar á botni Eyjafjarðar úti fyrir Arnarnesi.

„Ef þetta er raunin, að jarðhitakerfið við Hjalteyri sé um það bil fullnýtt, blasir við að virkja þarf önnur jarðhitakerfi og þau eru lengra í burtu,“ segir Helgi. Norðurorka á jarðhitaréttindi við Ytri – Vík og Syðri – Haga og hafa þau verið til rannsóknar undanfarin ár. Kostnaðarsamt  sé að sækja heitt vatn um langan veg. Jarðhitakerfið á Hjalteyri hafi verið notað í um 20 ár og staðið undir allri aukningu hitaveiturnnar frá þeim tíma. „Við getum þakkað fyrir að Hjalteyrarkerfið hafi verið svo gjöfult sem raun ber vitni, ekki síst þegar horft er til þess að heitavatnsnotkun á Akureyri og tengdum veitum hefur tvöfaldast á þessum tveimur áratugum,“ segir hann.

Berum við næga virðingu fyrir jarðhitaauðlindinni ?

Norðurorka hefur alla tíð lagt áherslu á að ganga ekki of nærri náttúrauðlindum og haft sjálfbærni að leiðarljósi. Hlutverk félagsins er að sjá notendum fyrir heitu vatni og þeim lífsgæðum sem hitaveitu fylgir. Tvöföldun á notkun á heitu vatni á 20 árum er langt umfram fólksfjölgun yfir sama tímabil. „Það má velta ýmsu upp varðandi notkun á heitu vatni og hvort við gætum umgengist þessa auðlind okkar af meiri virðingu og haft í huga að sóa henni ekki,“ segir Helgi og nefnir m.a. hvort nauðsynlegt sé að hita upp íþróttavelli að vetrarlagi, hvort breiða ætti yfir sundlaugar og eins megi spyrja sig hvort brýna nauðsyn beri til að hita upp bílaplön sem dæmi um hugsanlegan sparnað á heitu vatni. „Það er margt sem hægt er að skoða og gera betur. Við búum á svæði sem ekki er sérlega ríkt af heitu vatni og þurfum virkilega að huga að því hvernig best er að nýta það,“ segir hann.

Helgi segir stöðuna ekki á þann veg að heitt vatn á Hjalteyrarsvæðinu sé að verða búið, nú sé að finna jafnvægi í sjáfbærri nýtingu á jarðhitakerfinu og bregðast þannig við vísbendingum, framhaldið sé að huga að nýjum vatnsöflunarsvæðum. Enn á eftir að leggja einn áfanga í svonefndri Hjalteyrarlögn sem er eitt af stóru verkefnum Norðurorku undanfarin ár. Kostnaður við heildarverkefnið kringum Hjalteyri var áætlað um 2,5 milljarðar króna en Helgi segir að nýja aðveitulögnin muni alltaf nýtast, ekki síst þegar vatn er sótt úr norðri.

Nýjast