Vinsælasta útivistarperla Húsavíkur

Hægt er að ganga hringinn í kringum Botnsvatn eftir göngustíg sem er 5,4 km langur. Einnig er hægt a…
Hægt er að ganga hringinn í kringum Botnsvatn eftir göngustíg sem er 5,4 km langur. Einnig er hægt að ganga frá Skrúðgarði eftir merktum göngustíg upp með Búðará að Botnsvatni. Mynd/epe

Botnsvatn er ein af vinsælustu útivistarperlum Húsavíkur og hefur verið það í áratugi. Vatnið liggur í fallegu dalverpi neðan Húsavíkurfjalls, rétt sunnan við byggðakjarna Húsavíkur og umhverfis það er dásamleg gönguleið sem er vel nýtt af gangandi, hlaupandi og hjólandi útivistarfólki. Ekið er upp úr miðjum Húsavíkurbæ, eftir Ásgarðsvegi og eftir um 3 mín akstur blasir vatnið við.

Botnsvatn

Botnsvatn er rétt rúmlega einn ferkílómeter að stærð og liggur í um 130 metra hæð yfir sjávarmáli. Í því er einhver veiði, helst þá bleikja. Úr vatninu rennur Búðará og fer hún í gegn um Húsavík á leið sinni til sjávar.

Botnsvatn

Á góðviðrisdögum eins og í dag má oft sjá þarna fjölda fólks, fjölskyldur í lautarferðum, börn á hornsílaveiðum og ekki síður göngumenn á röltinu. Húsavíkurfjall gnæfir nokkuð bratt yfir norðanverðum hluta vatnsins. Þegar blaðamaður lagði leið sína upp að Botnsvatni í dag var þar talsverður fjöldi fólks og reyndar hundar líka; en svæðið er kjörið til hundaþjálfunar. Þá hafði göngufólk orð á því að allt væri orðið krökkt af berjum umhverfis vatnið, sérstaklega inní botni. Enda hefur tíðin verið einstaklega góð í sumar og því kjörið fyrir berjatýnslu fólk að taka fram bauka sína.

Botnsvatn

Ef eitthvað er hægt að setja út á þessa náttúruperlu, þá er það akvegurinn upp að Botnsvatni. Hann er oftar en ekki illfær fram á mitt sumar og í tíðinni í sumar er hann heldur þurr. Þá er reyndar vert að benda á fallega gönguleið sem liggur úr Skrúðgarði eftir merktum göngustíg meðfram Búðará, alla leið upp að botnsvatni.

Botnsvatn

Nýjast