Vindar nýsköpunar blása á Siglufirði

Norðanátt ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Áslaugu Örnu Sigu…
Norðanátt ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Mynd/ Aníta Eldjárn.

Fjárfestahátíð Norðanáttar fór fram þann 29. mars síðastliðinn og segia aðstandendur hátíðarinnar að vegna þess hversu vel tókst til fyrir ári síðan, hafi verið ákveðið að stækka hátíðina og höfða til frumkvöðla og fjárfesta hvaðan æva að landinu.  

Sesselja Barðdal, framkvæmdastjóri hjá Eimi segir að hátíðin í ár hafi farið fram úr björtustu vonum skipuleggjenda, en að hátíðinni standa Eimur, SSNE, SSNV, Rata og Hraðið Húsavík með stuðningi frá Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytinu.

,,Við vorum mjög ánægð með öll teymin sem tóku þátt í ár sem komu frá öllum landshlutum. Það var líka merkilegt að sjá að verkefnin voru mörg svo ólík, sem sýndi líka bara hvað er mikil breidd af frumkvöðlum á Íslandi sem eru að vinna með hugmyndir tengdar hringrásarhagkerfinu“, segir Sesselja.

Yfir 30 verkefni sóttu um

Sérstök valnefnd var fengin til að velja þau verkefni sem fengu að kynna fyrir forsvarfólk fjárfestingasjóða og sjálfstæðra fjárfesta, en yfir þrjátíu verkefni af öllu landinu sóttu um í ár.

Yggdrasill Carbon, Melta, Frostþurrkun, Skógarplöntur, GeoSilica, E1, Gull úr Grasi, Kaja Organic, Fiskeldið Haukamýri, Biopol, Gefn, IceWind og Vínland Vineyard voru þau verkefni sem komust að í ár auk þess sem Bambahús voru með í stefnumóti við fjárfesta.

„Það komust því miður færri að en vildu, en um 150 aðilar, frumkvöðlateymi, fjárfestar og stuðningsaðilar í nýsköpun á Íslandi voru samankomin á Siglufirði til að heyra á fjárfestakynningar þessa þrettán teyma sem voru valin og auðvitað líka vera viðstödd á ráðstefnuhluta sem fór fram fyrr um morguninn þar sem tækifæri og nýting auðlinda til nýsköpunar voru rædd og árangurssögur frumkvöðla sem tóku þátt fyrir ári voru sagðar.“

Sesselja segir það vera góðs viti og marks um mikla grósku í grænni nýsköpun að viðbrögð við hátíðinni hafi verið eins og þau voru.

 „Það er bara ótrúlega mikilvægt fyrir framþróun í þessum málum að það sé vettvangur fyrir umræðuna og tengslanetið, þarna hittast lykilaðilar í stuðningsneti nýsköpunar, fjárfestar og frumkvöðlar og ræða um auðlindadrifna nýsköpun.“

Ísland ryðji brautina fyrir græna nýsköpun

Sesselja segir að mikil þörf sé á samfélagi frumkvöðla á landsbyggðunum líkt og Norðanáttin er.

,, Nú erum við að sjá að öflugar nýsköpunar áttir eru að byrja að blása um allt land; Sunnanátt, Vestanvindar, Austanátt og Norðanátt og svo eru auðvitað Klak og Sjávarklasinn á Höfuðborgarsvæðinu. Þetta gerir það að verkum að við ættum að tala og vinna sem mest saman með það að markmiði að Ísland verið það fyrsta sem heimurinn hugsar þegar talað er um Græna nýsköpun, Hringrásarhagkerfið og Græna orku“.

 Ráðherra ávarpaði hátíðina

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunar segir fjárfestahátíð Norðanáttar þegar búna að sýna fram á hve mikil þörf sé á stóraukinni áherslu á stuðning við sprota og frumkvöðla um allt land.

„Það að tengja allar þessar nýsköpunarlausnir af öllu landinu við fjárfesta er liður í því að nýta auðlindir okkar betur og grípa tækifærin sem blasa við okkur á tímum þar sem allur heimurinn er að reyna að leysa sömu loftslagsverkefnin. Þetta er gríðarlega mikilvægt og við Íslendingar þurfum að átta okkur á því að við getum gert miklu betur í að nýta öll þessi tækifæri. Sérstaklega úti á landi, í námunda við auðlindirnar okkar. Og það að fá allt þetta fólk hingað til Siglufjarðar til að sýna hvað frumkvölar um allt land eru kröftugir og í mikilli sókn er ómetanlegt,“ sagði Áslaug Arna í samtali við Fréttablaðið.

,,Við stefnum núna ótrauð áfram og erum strax farin að skipuleggja næsta ár en það er mjög líklegt að við viljum jafnvel líta út fyrir landsteinana fyrir Fjárfestahátíðina 2024. Við erum í góðu sambandi við frændur okkar Norðmenn og eigum margt sameiginlegt með þeim til að mynda gagnvart auðlindum, svo við gætum mögulega byrjað þar og séð svo til“, segir Sesselja.

 

Nýjast