„Fyrirhuguð uppbygging mun verða algjör bylting"
Á heimasíðu SAk er viðtal við Gunnar Lindal sem er verkefnastjóri á sviði rekstrar og klínískrar stoðþjónustu sjúkrahússins. Gunnar reifar í viðtalinu stöðuna í undirbúningi á nýbyggingu við sjúkrahúsið.
„Fyrirhuguð uppbygging mun verða algjör bylting fyrir SAk, til hagsbóta fyrir sjúklinga og starfsfólk“ segir Gunnar Líndal, verkefnastjóri á sviði rekstrar og klínískrar stoðþjónustu sjúkrahússins.
Gunnar Líndal
Í nýbyggingunni er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir lyflækningadeild, skurðlækningadeild og geðþjónustu þ.e.a.s dag-, göngu- og legudeild. „Þetta er gríðarlega umfangsmikið verkefni og í mörg horn að líta, enda skiptir sköpum að vanda undirbúninginn vel. Mikil áhersla hefur verið lögð á að vinna með starfsfólki og hönnuðum með það að markmiði að nýbyggingin gagnist sem best og sé í takti við nútímakröfur í heilbrigðisþjónustu.“ Segir Gunnar
Næstu skref
Áætlað er að jarðvegsframkvæmdir hefjist sumarið 2026 og má því gera ráð fyrir því að framkvæmdirnar verði boðnar út í haust eða næsta vor. „Til þess að tímalínan gangi upp er mikilvægt að fara í tilfærslur á bílastæðum í sumar, enda munu framkvæmdirnar vera á svæði þar sem nú eru um 130 bílastæði og nauðsynlegt að önnur komi í þeirra stað.“ Talsvert hefur verið rætt um lendingarstað fyrir þyrlu við bæði SAk og Landspítalann. „Það er sýn framkvæmdastjórnar SAk að á lóð sjúkrahússins verði lendingarstaður fyrir þyrlu og er unnið með þá sýn í samtali við bæði sveitarfélag og ráðuneyti.“
Horft til fyrirmynda innanlands og erlendis
Gunnar segir að við undirbúninginn hafi bæði verið horft til fyrirmynda innanlands og erlendis: „Við höfum horft talsvert til þeirrar vinnu sem unnin hefur verið við uppbyggingu nýja Landspítalans, þá sérstaklega er varðar lyf- og skurðlækningadeild, enda ýmislegt sambærilegt í þeirra þörfum og okkar á þeim deildum. Við höfum hins vegar nálgast undirbúning vegna geðdeildar með öðrum hætti þar sem erfitt hefur reynst að finna fyrirmynd sem er sambærileg okkar starfi. Í því skyni höfum við fengið til liðs við okkur sænska ráðgjafa hjá White arkitektum, sem hafa mikla reynslu af hönnun geðdeilda í Skandinavíu. Í undirbúningsvinnunni fórum við m.a. með hönnuðum verkefnisins til Danmerkur og heimsóttum þar þrjú geðsjúkrahús, auk þess sem við héldum mjög gagnlegan fund með notendum þjónustunnar.„