Vilji til skólahalds í Grímsey fyrir þrjá nemendur á vorönn

Líkur eru á að skóli hefjist í Grímsey á nýjan leik á vorönn með að lágmarki þremur nemendum.
Líkur eru á að skóli hefjist í Grímsey á nýjan leik á vorönn með að lágmarki þremur nemendum.

Fræðslu- og lýðheilsuráð hefur fyrir sitt leyti samþykkt að endurvekja skólahald í Grímsey á vorönn 2024 að því gefnu að þrír nemendur hefji þar skólagöngu. Endurmeta á stöðuna í maí á næsta ári.

Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs segir kostnaður við að setja upp skólahald í Grímsey á vorönn geti numið 12 til 13 milljónum króna. „Það kom fram ósk frá foreldrum í Grímsey um að hefja þar skólahald að nýju og er verið að bregðast við því,“ segir Kristín og gerir ráð fyrir að nemendur verði að lágmarki þrír á komandi vorönn.

Forsenda þess að hægt verði að bjóða upp á skólahald í Grímsey sé að úthlutað verði fjármagni til verkefnisins. Eftir eigi að leysa ýmis hagnýt mál og að ráða í störf, en að öllum líkindum verði um að ræða 1,8 stöðugildi til að nemendur fái þann kennslufjölda sem þeim ber. „Við erum vongóð um að ná að manna þessar stöður,“ segir hún.

 

Málinu var vísað til bæjarráðs sem einnig þarf að veita sitt samþykki.

 

Nýjast