Vilji til að kaupa viðbótarland og reisa alls 200 hús á svæðinu

Helgi Örn Eyþórsson verkefnastjóri hjá SS Byggir við gistiskála sem verið er að reisa í Hálöndum. Ha…
Helgi Örn Eyþórsson verkefnastjóri hjá SS Byggir við gistiskála sem verið er að reisa í Hálöndum. Hann býður upp á 24 herbergi en að auki verða reistir tveir skálar til viðbótar með 30 herbergjum hvor. Myndir/Aðsendar

mth@vikubladid.is

Tíu ár eru um þessar mundir frá því fyrsta skóflustungan var tekin að nýrri orlofshúsabyggð, Hálöndum í landi Hlíðarenda við Hlíðarfjallsveg, en á þeim áratug sem liðin er hafa risið þar um 70 hús. Til stendur að reisa um 40 í viðbót á svæðinu. Þá hefur fyrirtækið, SS Byggir sem á veg og vanda að uppbyggingu hverfisins sótt um að kaupa 30 hektara lands norður af Hálöndum af Akureyrarbæ til að reisa þar um 100 hús. Í allt verða því ef áform ganga upp um 200 orlofshús á svæðinu. Eftirspurn er mikil og biðlisti eftir að fá keypt hús.

Helgi Örn Eyþórsson verkefnastjóri hjá SS Byggir segir að félagið hafi á árinu 2010 keypt um 28 hektara lands úr Hlíðarendajörðinni og við tók umfangsmikið skipulagsferli þar sem m.a. þurfti að breyta landnotkun úr landbúnaði í ferðaþjónustu og eins þurfti að breyta aðalskipulagi Akureyrarbæjar. Tímamót urðu í júlí árið 2012 þegar Baldur Halldórsson á Hlíðarenda tók fyrstu skóflustunguna og framkvæmdir hófust í kjölfarið.

 Lítil tiltrú á verkefninu í fyrstu

Hálönd

 Tíu ár eru frá því Baldur Halldórsson á Hlíðarenda tóku fyrstu  skóflustunguna að orlofsbyggðinni Hálöndum við Hlíðarfjallsveg. Hér er mynd frá þeirri athöfn, en lengst til hægri sést í Helga Örn Eyþórsson verkefnastjóra.

 Helgi segir að staðan eftir hrun hafi verið á þann veg að lítið var um að vera í byggingageiranum, fátt um opinberar framkvæmdir og fasteignamarkaður langt í frá líflegur. Hugmyndin að uppbyggingu orlofshúsahverfisins hafi komið upp og farið að leita hófanna með samstarf í huga m.a. við fjárfesta. Bankar, lífeyrissjóðir og fjárfestar tóku hins vegar ekki vel í hugmyndina. „Það má með sanni segja að tiltrú á þetta verkefni var lítil, flestum fannst þetta óðs manns æði, draumkenndar pælingar sem ekki yrði annað en baggi á fyrirtækinu þegar upp yrði staðið, eitthvað sem endaði með ósköpum. Því voru ekki margir sem höfðu vilja til að  hoppa á vagninn með okkur,“ segir Helgi.

Félagið hóf verkið engu að síður og í eigin nafni og var byrjað á byggingu þriggja húsa. „Eftir það fór boltinn að rúlla, eftirspurnin jókst smám saman og undanfarin áratug hafa risið um 70 hús í Hálöndum. Einingar í fimm hús koma til landsins í haust og þá er stefnt að því að hefja byggingu á 10 húsum á næsta ári, en enn er rými fyrir um 40 hús á svæðinu sem félagið hefur til umráða. Allt í allt verða húsinu þá um 110 á því svæði þegar uppbyggingu lýkur.

Mikil eftirspurn og biðlisti

Helgi segir eignarhald húsanna á þann veg að Hrímland.is eigi tæplega 20 hús, Stéttar- og starfsmannafélög um eða yfir 25 hús og einstaklingar flestir búsettir á höfuðborgarsvæðinu eiga álíka mörg hús. Ákveðin hluti þeirra einstaklinga sem eiga hús í Hálöndum eru stórnotendur í Hlíðarfjalli en þess eru líka dæmi að fólk kjósi að eiga hús á svæðinu þó skíðamennska sé ekki helsta ástæða ferðalags til Akureyrar.

„Markmiðið var að byggja um 100 hús á svæðinu þegar við fórum af stað og útlit er fyrir að þau náist á næstu misserum. Eftirspurn er mikil og í raun hefur myndast biðlisti eftir húsum,“ segir Helgi, en SS Byggir hefur sótt um 30 hektara lóð norður af Hálöndum og hyggst reisa þar um 100 hús til viðbótar fáist lóðin.  „Við treystum okkur vel í það verkefni,“ segir Helgi. „Áhugi og eftirspurn er mikil fyrir þessum húsum, það er mikið spurt og biðlisti hefur myndast.“

Helgi segir hagkvæmt fyrir Akureyrarbæ að orlofsíbúðir séu skammt utan við bæinn í staðinn fyrir að vera inni í miðjum bæ, enda séu íbúarnir þá ekki að nýta inniviði bæjarins. SS Byggir greiðir full gatnagerðargjöld til Akureyrarbæjar en sér engu að síður, á eigin kostnað, um hönnun og gerð allra gatna í hverfinu. Bærinn kemur heldur ekki að viðhaldi gatnanna né snjómokstri. Hagsmunir Akureyrarbæjar og í raun samfélagsins vegna uppbyggingarinnar í Hálöndum eru því mjög miklir.

Þrír gistiskálar með rúmlega 80 herbergjum

Að auki er SS Byggir að reisa gistiskála á svæðinu, þar verða 24 rúmgóð fjölskylduherbergi með aðgangi að þurrkskápum og góðum geymslum fyrir skíði og hjól sem dæmi.  Helgi segir að gistiskálinn verði tilbúinn til notkunar næsta haust. Hafist er handa við uppsteypu á öðrum gistiskála með 30 herbergjum og sá þriðji verður reistur síðar, einnig með 30 herbergjum. Í allt verða því í boði 84 herbergi í gistiskálunum. Félagið Laugará mun sjá um rekstur gistiþjónustunnar í Hálöndum. „Markhópurinn er fólk sem stundar útivist, fer á skíði eða bretti, stundar hjólreiðar eða hvaðeina, en í námunda við Hálönd er líka akstursvæði , reiðhöll og keppnissvæði hestamanna og skotfélagið í bænum er líka með aðstöðu skammt frá auk þess sem stutt er að fara í Glerárdal þar sem endalausir möguleikar eru fyrir útivistarfólk,“ segir Helgi.

Nýjast