Vilja stytta leið að þjónustunni og úrvinnslutímann


mth@vikubladid.is

 

 

Notkun þjónustugáttar á vefsíðu Akureyrarbæjar hefur aukist umtalsvert frá því hún var tekin í notkun árið 2017. Notendum hefur fjölgað og eins þeim umsóknarformum sem boðið er upp á.

„Sveitarfélagið hefur síðustu ár margvisst unnið að því að koma umsóknum fyrir þá þjónustu sem það veitir á rafrænt form og aðgengilegt í gegnum þjónustugátt sveitarfélagsins. Covid hefur kennt okkur að við þurfum að geta afgreitt málin fljótt og örugglega í gegnum stafrænar leiðir og sú vegferð mun halda áfram,“ segir Sumarliði Helgason sviðsstjóri þjónustu og skipulagssviðs Akureyrarbæjar.

Frá árinu 2017 þegar umsóknarform á þjónustugátt voru 20 talsins og umsóknir það árið voru einnig um 20 yfir í 128 umsóknarform árið 2021 og tæplega 8.500 umsóknir.

„Við viljum stytta leið íbúanna að þjónustunni sem við veitum almennt séð sem og úrvinnslutíma beiðna. Sú vinna er í gangi og þar erum við að horfa mikið til stafrænna lausna en einnig að rýna og endurskoða þjónustuferla,“ segir Sumarliði.  

Sparar spor og tíma

Þjónustugátt sveitarfélagsins er að finna á heimasíðunni akureyri.is og þar er að finna fyrrnefnd umsóknarform ásamt öðrum samskiptum við sveitarfélagið, „sem ég skora fólk á að nýta sér.“

Bæjarráð hefur fagnað þeim árangri sem náðst hefur í fjölgun aðgerða sem íbúar geta sinnt í gengum þjónustugáttina og hvetur ráðið stjórnendur bæjarins til að fjölga aðgerðum enn frekar og spara íbúum og fyrirtækjum spor og tíma.

Nýjast