Vilja að bæjaryfirvöld flýti endurbótum á Glerárskóla

Séð yfir svæðið hjá Glerárskóla þar sem standa yfir framkvæmdir á nýjum leikskóla. Ljósmynd/Þorgeir …
Séð yfir svæðið hjá Glerárskóla þar sem standa yfir framkvæmdir á nýjum leikskóla. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.

Skólaráð Glerárskóla á Akureyri hefur sent bréf á bæjaryfirvöld þar sem skorað er á bæinn að endurskoða fjárveitingar til framkvæmda við endurbætur á skólanum með það að markmiði að flýta þeim svo þeim verði lokið eigi síðar en árið 2022. Samkvæmt fjárhagsáætlun sem samþykkt var fyrir 2021-2024 er gert ráð fyrir að haldið verði áfram með framkvæmdir við Glerárskóla á árinu 2023. 

Samkvæmt upplýsingum blaðsins er búið að endurnýja tvær álmur skólans á síðustu tveimur árum en hinar álmurnar bíða. Í bréfi frá skólaráði er áformuð seinkun hörmuð og sagt að endurbæturnar á skólanum þoli ekki bið. Skólinn standi fyrir óhagstæðum stærðum árganga m.t.t. reksturs. Leiða megi líkum að því að með opnun nýs leikskóla í Glerárhverfi í haust muni í framtíðinni leiða til aukinnar aðsóknar í Glerárskóla. Því sé mikilvægt að framkvæmdum á endurbótum verði lokið fyrir þann tíma.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, segir í fyrirspurn blaðsins að bæjarráð hafi rætt áskorun skólaráðs Glerárskóla um að flýta framkvæmdum í síðustu viku. „Við höfum ekki tekið afstöðu til hennar en vísuðum henni til gerðar fjárhagsáætlunar 2022 og því lítið um málið að segja á þessum tímapunkti,“ segir Guðmundur Baldvin.

Nýjast