Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag, fimmtudaginn 3. september. Meðal efnis í blaði vikunnar:

*Hjónin Sævar Helgason og Sara Dögg Pétursdóttir á Akureyri gerðu sér lítið fyrir og klifu Hraundranga í Öxnadal í síðustu viku undir forystu Jökuls Bergmanns fjallaleiðsögumanns. Alls tók ferðin átta og hálfan klukkutíma. Hraun­drangi er 1.075 m hár og var fyrst klifinn árið 1956. Vikublaðið sló á þráðinn til Sævars og fékk að heyra ferðasöguna, auk þess að birta ansi magnaðar myndir úr ferðinni.

*Atvinnulífið á Húsavík fékk mikinn skell í sumar þegar tilkynnt var um lokun kísilversins á Bakka og ekki mátti atvinnulífið við því nú þegar hrun blasir við ferðaþjónustunni í vetur. Byggingariðnaðurinn er á sama tíma að blómstra en Vikublaðið ræddi við Ragnar Hermannson verkefnastjóra hjá Trésmiðjunni Rein.

*Ný verslun H&M opnaði á Glerártorgi í morgun og er þetta fyrsta verslunin utan höfuðborgarsvæðisins. Verslunin spannar 2000 fermetra rými. Verslunarstjórinn er Edda Bjarnadóttir og segir hún opnun verslunarrisans hér í bænum vera stóra stund.

*Víkurskel ehf. vinnur að því að kanna hagkvæmni þess að byggja upp landeldi á ostrum á Húsavík. Reynslan hefur sýnt að eftirspurn eftir ferskri ostru er mikil bæði hér á landi og erlendis. Snæbjörn Sigurðarson ræddi við Vikublaðið.

*Framsýn stéttarfélag fer ótroðnar slóðir í að stuðla að fjölgun Þingeyinga og þar með félagsfólki. Nú hefur stéttarfélagið kynnt hvata til að félagsfólk fjölgi getnuðum.

*Sigrún Björg Aradóttir tók áskorun frá Sigríði Ýr Unnarsdóttur í síðasta blaði og hefur umsjón með Matarhorni vikunnar.

*Akureyrarbær fagnaði afmæli þann 29. ágúst og eru liðin 158 ár frá því bærinn hlaut kaupstaðarréttindi. Hefð er fyrir því að fagna afmælinu með Akureyrarvöku, en vegna Covid-19 faraldursins var henni aflýst í ár. Þess í stað var afmælinu fagnað á nýstárlegan og fremur óvenjulegan hátt svo hægt sé að virða fjarlægðarmörk, samkomutakmarkanir og aðrar sóttvarnareglur yfirvalda. Heillandi ljósaverk á nokkrum af tignarlegustu byggingum og svæðum bæjarins, bílabíó og listsýningar bera þar hæst. Þorgeir Baldursson ljósmyndari var á ferð og flugi um helgina og fangaði stemmninguna. 

*Eins og Húsvíkingar hafa eflaust tekið eftir standa yfir miklar framkvæmdir við Naust, húsnæði björgunarsveitarinnar Garðars. Að sögn Guðmundar Salómonssonar björgunarsveitarmanns og húsasmíðameistara var upphaflega ákveðið að fara í framkvæmdir til að rakaverja húsið en það hefur um árabil legið undir skemmdum vegna raka. Til þess fékkst styrkur frá Norðurþingi en fljótlega var ákveðið að stækka húsið úr því að það var á annað borð verið að ráðast í stórar framkvæmdir.

Smelltu hér til að gerast áskrifandi.

Nýjast