Viðræður hafnar um vinnslu á stórþara á Húsavík

Húsavíkurhöfn . Mynd/epe
Húsavíkurhöfn . Mynd/epe

Húsavík er á góðri leið með að verða miðstöð fyrir umhverfisvæna framleiðslu úr náttúrulegum hráefnum í matvæli, lyf og heilsuvörur sem eftirspurn er eftir á alþjóðlegum mörkuðum, samkvæmt fréttatilkynningu frá Íslandsþara ehf. Snæbjörn Sigurðarson verkefnastjóri segir í samtali við Vikublaðið að viðræður við fjárfesta standi yfir um að hefja vinnslu á stórþara á Húsavík og að þær gangi vel. Það eru Íslensk verðbréf sem halda utan um viðræðurnar. „Þeir sjá um fjármögnunarhluta verkefnisins og það  eru komnir fjárfestar við borðið sem eru að skoða verkefnið en engar ákvarðanir hafa verið teknar. Íslandsþari er nýtt fyrirtæki sem Íslensk verðbréf stofnuðu til að koma verkefninu af stað. Að sögn Snæbjörns liggur endanlegt eignarhald ekki fyrir en að útlit sé fyrir að það verði að mestu leiti í höndum Íslendinga.

Tilkynninguna frá Íslandsþara má lesa hér fyrir neðan:

„Fyrirtækið Íslandsþari ehf. telur gott aðgengi að lykilþáttum, s.s. jarðhita, þaramiðum og góðum innviðum skipti höfuðmáli við val á staðsetningu fyrir starfsemina. Fyrirtækið mun afla og vinna stórþara, Laminaria hyperborea, en í honum býr einstök flóra náttúrulegra efna sem hægt er að vinna úr fjölbreyttar og verðmætar afurðir. Ein meginafurðin nýtist í framleiðslu bakflæðislyfja og virkar þarinn þannig sem náttúrulegur valkostur við aðrar vörur á markaði. Íslenski stórþarinn býr yfir sérstökum heilsueflandi eiginleikum sem nýtast í baráttunni við krabbamein og ofþyngd sem og í snyrti- og heilsuvörur.

Eitt af langtímamarkmiðum fyrirtækisins er að framleiða niðurbrjótanlega himnu úr þaranum sem hægt er nota sem umhverfisvænan valkost í stað plasts við varðveislu ferskra matvæla. Framleiðsla fyrirtækisins mun fyrst og fremst fara inn á alþjóðlegan markað sem í dag veltir ríflega 80 milljörðum króna árlega. Stefnt er að því að árið 2025 þegar starfsemin hefur náð fullum afköstum verði ársvelta fyrirtækisins um 5,4 milljarðar króna. Á þeim tíma er gert ráð fyrir um 90 stöðugildum hjá fyrirtækinu.“

Nýjast