„Við erum að leita að kraftinum sem býr í íbúum á svæðinu“

Silja Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE. Mynd/aðsend
Silja Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE. Mynd/aðsend

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) taka í ár þátt í Nýsköpunarvikunni í samtarfi við SSNV. Um er að ræða viðburð sem haldinn verður í annað sinn á þessu ári dagana 26. maí til 2. júní.

Nýsköpunarvikan er hátíð þar sem fyrirtækjum og frumkvöðlum gefst kostur á að standa fyrir nýsköpunartengdum viðburðum þar sem spennandi sóknarfæri og frjóar hugmyndir geta sprottið upp.

Hátíðinni er ætlað að vekja athygli á nýsköpun sem á sér stað innan stofnana, fyrirtækja og sprotafyrirtækja þar sem framúrstefnulegar lausnir, ólík sköpunarferli og kraftmiklir frumkvöðlar fá notið sín. Nýsköpunarvikan er þannig vettvangur fyrir innlenda jafnt sem erlenda aðila til að kynnast nýsköpun á Íslandi, tengjast sprotum, fjárfestum og frumkvöðlum og mynda ný viðskiptasambönd og tengsl.

Vilja ná til almennings

Að sögn Silju Jóhannesdóttur, verkefnastjóra hjá SSNE, sjá landshlutasamtökin sér mikil tækifæri í þátttöku fyrir Norðurland eystra, frumkvöðla og fyrirtæki á svæðinu að koma sér á framfæri á þessum vettvangi. „SSNE hefur upp á að bjóða öflugt stuðningsnet fyrir nýsköpunarstarf. Við viljum opna þessar gáttir almenningi svo umræðan eigi sér ekki bara stað í lokuðum kreðsum,“ segir Silja.

Í samtali við Vikublaðið dregur Silja fram Hugmyndaþorpið sem áhugaverðan vefvang sem verður opinn alla vikuna. Hugmyndaþorpið er í raun vettvangur á netinu þar sem fólk getur komið saman og rætt hugmyndir sínar um fullvinnslu afurða.  Fullvinnsla afurða er sameiginlegt markmið sóknaráætlanna landshlutasamtakanna á Norðurlandi, SSNE og SSNV. „Við erum að leita að kraftinum sem býr í íbúum á svæðinu,“ segir Silja og bætir við að Hugmyndaþorpið sé fyrir hvern sem er til að koma með hugmyndir og aðferðir til að fullnýta afurðir. „Svipuð hugmyndafræði og í hakkaþonum. Besta hugmyndin verður valin og þetta er keyrt í samvinnu við Austan mána sem þróaði vefvanginn og aðlagaði að vikunni.“

Þá nefnir Silja nokkuð sem heitir Nýsköpunarferðalag um Norðurland en það eru eins konar sýndarheimsóknir í Fab-lab. „Einnig svona nýsköpunarmiðstöðvar. Þar er sett upp rafrænt kort þar sem sýndar eru staðsetningar og örmyndbönd til kynningar fyrir alla staðina.“

Að lokum munu þátttakendur kynnast „Matarboðinu“ sem keyrt verður yfir allt landið.  Frumkvöðlar í ræktun eða matarframleiðslu tengjast veitingastöðum og eru með „pop up“ kvöld í kringum vikuna. „Staðfest á Norðurlandi er rababara ræktandi í Eyjafirði sem mun starfa með Sjávarborg á Hvammstanga. Fleiri eru skráðir en við eigum eftir að fá frekari upplýsingar um það,“ segir Silja.

Hádegisstreymi verða í boði alla virka daga vikunnar. „Í hverju og einu verður fókus á atvinnugrein og nýsköpun innan hennar þar sem tveir eða fleiri koma saman og segja frá nýsköpun innan síns fyrirtækis eða stofnunar,“ útskýrir Silja.

 

 

 

Nýjast