27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Verslanir í Hrísey og Grímsey fá styrki
Hríseyjarbúðin ehf. hefur hlotið styrk að upphæð 4.730.000 kr. og verslunin í Grímsey að upphæð 2.000.000 kr. á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036. Samtals var 30 milljónum úthlutað að þessu sinni til verslunar í dreifbýli fyrir árin 2022 og 2023 og verða samningar vegna styrkjanna undirritaðir á næstu dögum.
Markmiðið er að styðja við rekstur dagvöruverslana í minni byggðarlögum fjarri stórum byggðakjörnum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu. Framlögin eiga að bæta rekstur verslana og skjóta frekari stoðum undir hann, til dæmis með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu. Þetta kemur fram á vefsíðu Akureyrarbæjar.
Alls bárust ellefu umsóknir og samtals var sótt um kr. 41.549.550.
Verkefnin sem hljóta styrk eru:
- Verslun í Árneshreppi hlýtur styrk að upphæð kr. 6.000.000.
- Pöntunarþjónusta Hafnartanga, Bakkafirði. Tilraunaverkefni um pöntunarþjónustu, framhald fyrra verkefnis frá 2019 sem er lokið. Verkefnið er styrkt um kr. 1.644.000.
- Verslunarfélag Drangsness. Smásöluverslun, póstþjónusta, bensín- og olíuafgreiðsla, samfélagshús. Verslunin er styrkt um kr. 7.800.000.
- Hríseyjarbúðin ehf. Verslunin hlýtur styrk til kaupa á tækjum og búnaði og til rekstrar að upphæð kr. 4.730.000.
- Verslun í Grímsey hlýtur rekstrarstyrk að upphæð kr. 2.000.000.
- Lágvöruverslunin Skerjakolla á Kópaskeri. Verslunin hlýtur styrk vegna endurbóta á húsnæði kr. 2.826.000.
- Gvendarkjör, Kirkjubæjarklaustri. Ljúka á endurbótum á húsnæði og kaupa tæki og búnað. Verslunin er styrkt um kr. 2.500.000.
- Verslunin Urð ehf., Raufarhöfn. Verslunin hlýtur styrk til viðhalds á húsnæði, kr. 1.000.000 árið 2022 og kr. 1.500.00 árið 2023, alls 2.500.000 kr.