„Verður mikil lyftistöng fyrir Glerártorg“

Tölvuteiknuð mynd af veitingastaðnum
Tölvuteiknuð mynd af veitingastaðnum

Verksmiðjan-Restaurant nefnist nýr veitingastaður sem mun opna á Glerártorgi á Akureyri í vor. Um fjölskylduvænan veitingastað er um að ræða með barnahorni og sportbar á efri hæð. Það er veitingamaðurinn Kristján Þórir Kristjánsson, eða Kiddi eins og hann er kallaður, sem stendur að opnun staðarins en áður rak hann Símstöðina og Rub23.

Kristján segir að það hafi lengi vantað veitingastað á Glerártorg með opnunartíma fram á kvöld og jafnframt sér hann tækifæri í að opna veitingastað í verslunarmiðstöðinni. Hann leggur mikla áherslu á að um fjölskylduvænan veitingastað sé að ræða, á matseðlinum verður allt frá salötum, pizzum, hamborgurum í góðar steikur. Hann ætlar jafnframt að stilla verðinu í hóf í mat og drykk.

„Það er mikil þörf á veitingastað á þessu svæði og sárvantaði í veitingaflóruna á Akureyri. Staðurinn verður opinn frá hádegi og alveg fram á kvöld. Þar af leiðandi er þetta um nýjung að ræða og mun verða mikil lyftistöng fyrir Glerártorg og svæðið allt,“ segir Kristján. Á neðri hæð veitingastaðarins  verður sæti fyrir 50-60 manns og á efri hæðinni verður sportbar og sæti fyrir 100 manns. Á sportbarnum verður eitt risatjald og í það minnsta sex flatskjáir.

Kiddi fylgist með framkvæmdum á Glerártorgi.

„Ég er leggja 110% í þetta verkefni. Á sportbarnum verður ekki bara fótbolti til sýnis heldur ætlum við t.d. líka að sýna frá NFL-deildinni, NBA, handbolta, pílu, formúlu 1 og alla flóruna. Allt í toppgæðum,“ segir Kristján. Áætlað er að staðurinn opni í kringum mánaðarmótin maí/júní. Kristján segist spenntur fyrir opnun staðarins og hefur fulla trú á því að hann eigi eftir að vera góð búbót í veitingaflóruna. „Ég hefði aldrei selt Símstöðina nema að ég sæi veruleg tækifæri í að opna á Glerártorgi,“ segir Kristján.

Nýjast