Velheppnað minningarmót um Gylfa Þórhallsson

Akureyrarmeistarinn Rúnar Sigurpálsson og stórmeistarinn Jóhann Hjartarson. Mynd/Sigurður Arnarson. …
Akureyrarmeistarinn Rúnar Sigurpálsson og stórmeistarinn Jóhann Hjartarson. Mynd/Sigurður Arnarson.

Um Hvítasunnuhelgina fór fram minningarmót um Gylfa Þórhallsson skákmeistara og forystumann í norðlensku skáklífi um áratuga skeið. Gylfi féll frá þann 29. mars á síðasta ári. Tefldar voru tólf umferðir, keppendur voru alls 58 og á meðal þátttakenda voru tveir stórmeistarar og þrír alþjóðlegir meistarar.

Það var alþjóðlegi meistarinn Davíð Kjartansson sem bar sigur úr býtum með 10 vinninga. Stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson var í öðru sæti með 9 vinninga og alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson varð þriðji með 8.5 vinning. Þrír Akureyringar deildu svo fjórða sætinu með Jóhanni Hjartarsyni stórmeistara, þeir Jón Kristinn Þorgeirsson, Símon Þórhallsson og Rúnar Sigurpálsson. Fengu þeir allir 8 vinninga.

Áskell Örn Kárason sigraði í öldungaflokki (+65) og Elsa María Kristínardóttir í kvennaflokki. Í flokki skákmanna með færri en 2000 atskákstig varð Mikael Jóhann Karlsson efstur og í flokki skákmanna með færri en 1600 sigraði Benedikt Þórisson. Mótið var í alla staði vel heppnað segir í tilkynningu og var teflt í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi. Segir jafnframt í tilkynningu að aðstæður þar séu e.t.v. þær bestu sem bjóðast fyrir skákmót af þessu tagi. 

Nýjast