20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Vegagerðin tekur við snjómokstri og hálkuvörnum á vegum innan þéttbýlis á Akureyri
Vegagerðin hefur tilkynnt Akureyrarbæ að hún muni taka við og sjá um vetrarþjónustu, þ.e. snjómokstur og hálkuvarnir á vegum Vegagerðarinnar innan þéttbýlis á Akureyri frá og með september næstkomandi. Akureyrarbær hefur sinnt þessu verkefni fram til þessa fyrir Vegagerðina, en m.a. er um að ræða Hörgárbraut, Glerárgötu og Drottningarbraut.
Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar segir það ekki hafa áhrif á rekstur bæjarins að Vegagerðin taki við sínum götum nú, en hún hafi áður greitt fyrir þetta verkefni. „Yfirsýn og verkstjórn hefur verið á hendi bæjarins og við höfum notað okkar tæki og mannskap við þennan mokstur samhliða verktökum. Fyrir Akureyrarbæ verður þetta svolítil einföldum og líklega munum við þá fá aukið svigrúm til að nýta okkar mannskap til að moka okkar eigin götur og stíga,“ segir hann.
Andri segir að mikilvægt sé að mokstur á götum Vegagerðarinnar verði vel samræmdum við mokstur bæjarins og að einn komi ekki og fari að hreinsa upp það sem annar er kannski nýbúinn að hreinsa. „Við höfum líka áhuga fyrir að heyra hvernig Vegagerðin ætlar að standa að hálkuvörnum, þrifum og aðgerðum gegn svifryksmengum svo dæmi séu tekin,“ segir hann.
Umhverfis- og mannvirkjaráð hefur samþykkt að fara í útboð á snjómokstri og hálkuvörnum á Akureyri og nær það fyrir þrjá næstu vetur, þ.e. til vorsins árið 2026. Möguleiki verður á framlengingu um eitt ár til viðbótar.