27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Vegagerðin framlengir samning um siglingar Hríseyjaferju um 3 mánuði
Vegagerðin hefur framlengt samning við Andey ehf. um að halda uppi siglingum milli Hríseyjar og Árskógasands næstu þrjá mánuði, eða til 31. mars 2023. Þetta er gert til að siglingar Hríseyjarferju falli ekki niður en það myndi valda mikilli röskun á samgöngum við Hrísey. Þetta kemur fram á vef Vegagarðarinnar.
Andey ehf. hefur séð um rekstur Hríseyjarferjunnar undanfarin ár en samningurinn rennur út nú um áramótin. Vegagerðin bauð út siglingarnar að nýju og til stóð að gera nýjan samning á grundvelli útboðsferlis sem tæki gildi 1. janúar 2023. Hins vegar urðu ófyrirséðar tafir vegna kæru á útboðinu sem valda því að ekki er unnt að gera nýjan samning um þessar siglingar fyrr en niðurstaða í málinu liggur fyrir.
Til að bregðast við þessu var ákveðið að semja tímabundið við Andey ehf. til að samgöngur milli Hríseyjar og Árskógasands féllu ekki niður. Vegagerðin lýsir yfir ánægju með hve vel starfsfólk Andeyjar ehf. brást við þessari beiðni.