Veðurklúbbur Dalbæjar spáir mildum janúar fyrir norðan
Veðurklúbbur Dalbæjar kom saman til fyrsta fundar ársins í gær í betri stofu Dalbæjar. Niðurstaða fundarins var sú að Norðlendingar megi eiga von á mildum vetri í janúar þó aðrir landshlutar muni ekki sleppa eins vel.
Þá var farið yfir fundargerðir síðasta árs og niðurstaða þeirrar yfirferðar sú að klúbburinn hafi verið nokkuð sannspár.
„Og samkvæmt tunglkomu þann annan janúar síðastliðin þá eigum við hér norðan heiða áfram von á mildum vetri í janúar á meðan aðrir hlutar landsins eiga því miður ekki alveg sama láni að fagna. En þar sem eitthvað er ennþá laust af byggingalóðum hérna á Dalvík þá mælum við eindregið með því að þið sækið um lóð hér og fáið þannig notið með okkur veðurblíðunnar í sama mæli.
Annars voru ræddir draumar, andleg málefni, hafís og margt annað af átta félögum Veðurklúbbsins að þessu sinni og öll þau umræðuefni og mörg fleiri tengjast að sjálfsögðu veðrinu, enda ekkert okkur óviðkomandi í leit okkar að traustum leiðum að réttustu veðurspám framtíðarinnar.
Við kíktum reyndar líka á veðurþáttaspána á vedur.is og þau virðast alveg vera að standa sig með prýði enda yfirgnæfandi líkur á að þau þar styðjist við langtímaspár Veðurklúbbs Dalbæjar,“ segir í fundargerð veðurklúbbsins sem sendur var á Vikublaðið.
Fornu fræðin finnast enn
Hjá fróðleiksmolum fullum
Því leiknir eru liðsins menn
Sem mata mig á gullum.
Höf. BJ./ Bjór.
En sú blíða allsstaðar.
En sú blíða allsstaðar
– auðar víða hlíðarnar.
Betra tíðar fæst ei far
– fram í líður janúar.
Höfundur:Ingimundur Gunnar Jörundsson
Heimild:Kvæðaperlur úr Kaldrananeshreppi.
Janúar 1953.