Vantar um 40 leikskólarými á Akureyri næsta haust
Ljóst er að Akureyrarbæ skortir leikskólarými eða nýjar deildir nú og til framtíðar en til að náist að innrita börn sem náð hafa 12 mánaða aldri í lok næsta sumars, 31. ágúst 2023 vantar um það bil 40 leikskólarými miðað við stöðuna eins og hún er núna.
Heimir Örn Árnason formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs segir að á liðnu hausti hafi staðan verið með ágætum og ekki skortur á leikskólarýmum á Akureyri, en breytingar gerist oft á undraskömmum tíma. Það gildi um öll sveitarfélög, ekki bara höfuðstað Norðurlands.
Niðurstaða í lok febrúar
Hann segir fræðslu- og lýðheilsuráð muni nú á næstu vikum fara gaumgæfilega í saumana á málinu. “Það eru þrjár til fjórar færar leiðir til að leysa málið, við munum skoða þær á næstu vikum og stefnum á að niðurstaða liggi fyrir í lok febrúar næstkomandi. Í framhaldinu verður unnið eftir þeirri niðurstöðu og allt gert til að bæta úr þannig að ekki verði skortur á leikskólaplássi næsta haust,” segir hann.
Ákvörðun hefur verið tekin um að næsti nýi leikskóli á Akureyri verði í Hagahverfi, á svæði milli hverfisins og Nausta. Heimir Örn segir að sú staðsetning sé ákjósanleg en m.a. verði hægt að samnýta eldhús með Naustaskóla sem auki á hagkvæmni. Þá segir hann að huga þurfi að endurbótum á eldra húsnæði og í undirbúningi sé að vinna að endurbótum á tveimur leikskólum, Lundarseli og Pálmholti.