Vaðlaheiðargöngum ýtt úr vör

Höskuldur Þór Þórhallsson
Höskuldur Þór Þórhallsson

Það er mikið fagnaðarefni að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng séu hafnar. Eftir mikla baráttu alþingismanna, sveitarstjórnarmanna, áhugafólks um jarðgöngin og ekki síst heimamanna er nú ljóst að þessi mikla samgöngubót verður að veruleika. Jarðgöng sem stytta munu vegalengdir, afnema torfæran fjallveg og styrkja Norðurland sem eitt atvinnusvæði.

Það er ekki ofsögum sagt að umræðan um göngin hafi verið erfið.

Fullyrðingar um þjóðhagslega óhagkvæmni og óþarfa samgöngubót glumdu í fjölmiðlum. Oft þannig að erfitt var að hafa undan við að leiðrétta rangan og villandi málflutning. Steininn tók samt úr þegar FÍB – Félag íslenskra bifreiðaeigenda lagðist gegn gangaframkvæmdinni með rakalausum fullyrðingum um frábærleika vegarins um Víkurskarð.

Staðreyndin er sú að hagkvæmari framkvæmd er vart fundin fyrir ríkissjóð.

Það liggur fyrir að Vaðlaheiðargöng verða að veruleika fyrr en seinna og þá að fullu greidd úr sameiginlegum sjóðum skattborgaranna innan 10- 15 ára. Það að notendur greiði fyrir akstur í gegnum göngin og þar með fyrir byggingu ganganna er ódýrasta leiðin fyrir ríkið. Jafnvel þó að eftir stæðu vextir af láninu, eins og svörtustu spár gera ráð fyrir, er þjóðhagsleg hagkvæmni ganganna ótvíræð.

Einhverjir hafa spurt sig hvort ekki gæti verið réttlætanlegt að taka lán og setja í velferðarmál ef til standi á annað borð að taka lán. Svo er hins vegar ekki.

Eins og staða ríkissjóðs er í dag er engan veginn réttlætanlegt að taka fjármuni að láni nema að verkefnið standi undir sér. Það stendur ekki til láta notendur velferðarþjónustu landsins standa undir henni. Einkavæðing heilbrigðiskerfisins kemur ekki til greina. Fjármögnun þess verður að koma úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Það sem veldur manni hins vegar áhyggjum er bilið sem sífellt virðist vera að breikka á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Það endurspeglast ekki aðeins í þessu máli heldur líka gagnvart viðhorfinu til Reykjavíkurflugvallar. Einhverrar mikilvægustu samgöngumiðstöðvar landsins.

Reynt er með öllum ráðum að þrengja að vellinum og sífellt er reynt að draga úr mikilvægi hans í umræðunni.

Það var vissulega undarlegt að upplifa að fráfarandi ríkisstjórn hafði jafn lítinn áhuga á verkefninu og raun bar vitni og að lokum hafi þurft hluta stjórnarandstöðunnar til að koma málinu í gegnum Alþingi.

Það að Vaðlaheiðargöng séu að verða að veruleika sýnir hins vegar að samstaða heimamanna og málefnalegur málflutningur getur tryggt betri samgöngur og bætt lífsskilyrði á Norðausturlandi.

Ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í þeirri baráttu.

 

Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis

Nýjast