Úrbætur á aðflugi að Akureyrarflugvelli á næsta ári
Eins og greint var frá hér á vefnum í morgun lýsti Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður áhyggjum sínum yfir þvi að nýtt aðflug úr suðri, það er þegar lent er til norðurs, yrði ekki tilbúið þegar EasyJet hæfi flug sitt í lok október. Vefurinn leitaði eftir fréttum um stöðu málsins hjá Sigrúnu Jakobsdóttur en hún er eins og kunngut er framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla.
,,Við erum að fara að setja af stað hönnun á A-RNP aðflugi úr suðri sem verður gefið út árið 2024. Flugferlahönnun er unnin samkvæmt áætlun á hverju ári og þetta aðflug er næst á dagskrá. Þetta verður töluverð breyting fyrir Akureyrarflugvöll því á sama tíma verður radaraðflug lagt niður og skiparatsjáin tekin niður. Um það bil hálf öld er síðan ratsjáin var sett upp á Akureyrarflugvelli. Ratsjáin er upphaflega framleidd til notkunar í skipum og miðast hönnun og framleiðsla við þá notkun. Þegar ratsjáin var sett upp á sínum tíma var stuðst við reglur frá Bretlandi varðandi uppsetningu ásamt verklagi í tengslum við notkunina. Reglur sem snúa að flugleiðsögu hafa breyst verulega frá því ratsjáin var sett upp og stenst hún á engan hátt þær kröfur sem gerðar eru til flugleiðsögubúnaðar í dag.
Á þeim tíma sem liðinn er síðan ratsjáin var sett upp hafa orðið umtalsverðar breytingar á þeirri flugleiðsöguþjónustu sem boðið er upp á fyrir Akureyrarflugvöll en í því sambandi má nefna ILS á báða flugbrautarenda ásamt flugferlum sem byggja á gervihnattaleiðsögu fyrir braut 19. Einnig hefur búnaður flugvéla sem nota Akureyrarflugvöll tekið miklum breytingum á tímanum.”
Ekki orðið vör við áhyggjur fólks hjá Easy jet
,,Easy jet hefur undirbúið flugáætlun sína vel. Þeir hafa fengið ítarlegar upplýsingar og fræðslu frá okkur um aðstæður á Akureyrarflugvelli og fyrirhugaðar breytingar og innleiðingu á A-RNP á næsta ári og ekki gert athugasemdir.
Þeir hafa heimsótt flugvöllinn og skoðað aðstæður. Flugmenn þeirra eru að fá viðeigandi þjálfun á flugvellinum og ég hef ekki orðið vör við miklar áhyggjur hjá þeim af vetrarmánuðum. Flugfélagið hefur verið að skoða möguleika á Akureyri síðast liðin áratug og metið reglulega bæði flugvöllinn og áfangastaðinn Norðurland og nú eru þessi ánægjulegu áform að verða að veruleika. Auðvitað geta komið erfið skilyrði í veðri yfir Norðurlandi en reynslan með vetraráætlun bæði Transavia og Superbreak sýnir að þjálfun og undirbúningur flugmanna skiptir höfuðmáli.”
Sagði Sigrún í skriflegu svari svari til vefsins.