Upphaf byggðar við Eyjafjörð

,,Galtarhamar heitir nú Festarhamar eða Festarklettur og stendur nyrst í landi Kaupangs
,,Galtarhamar heitir nú Festarhamar eða Festarklettur og stendur nyrst í landi Kaupangs"
Í Landnámabók segir að Helgi magri hafi lent skipi sínu við Galtarhamar. „Þar skaut hann á land svínum tveimur og hét gölturinn Sölvi. Þau fundust þremur vetrum síðar í Sölvadal. Voru þá saman sjö tugir svína.” Þetta er ein af mörgum örnefnasögnum í Landnámabók þar sem örnefni eru kveikja að frásögn til þess að gera söguna lifandi - og ef til vill sennilegri. Galtarhamar heitir nú Festarhamar eða Festarklettur og stendur nyrst í landi Kaupangs. Festarklettur er ávalur eða kúptur og líkist klettum og fjöllum á Íslandi - og í Noregi - sem bera galtarnafn. Hugsanlegt er að kletturinn hafi upphaflega heitið Göltur og andríkur höfundur Landnámu síðan gefið gelti Helga magra nafnið Sölvi til þess að skýra örnefnið Sölvadalur sem á sér aðra skýringu.
 
Tvær fornar tóftir eru við Festarklett, taldar leifar verslunarbúða, enda ber jörðin nafnið Kaupangur - ‘verslunarstaður’. Þriðja tóftin við Festarklett er talin fornt naust. Þarna er því sennilega elsta höfn við Eyjafjörð þar sem haldnar hafa verið kaupstefnur. Eins og staðkunnugir þekkja er ekki lengur unnt að sigla að Festarkletti en – hefur verið unnt áður en framburður Eyjafjarðarár fyllti þarna upp. Örnefnið Kaupangur kemur aðeins fyrir á þessum eina stað á Íslandi. Í Noregi er vitað um þrjá staði sem borið hafa þetta nafn: byggð við innanverðan Sognsæ, bær við Larvik á Vestfold og auk þess er Kaupangur gamalt nafn á Niðarósi, sem nú heitir Trondheim, Þrándheimur.
 
Handan Eyjafjarðar var grasbýlið Naustir. Akureyrarbær keypti jörðina 1902 til þess að auka landrými vaxandi kaupstaðar. Var búið á jörðinni fram eftir síðustu öld. Við býlið er kennt Naustahverfi, nýjasta byggðarhverfi Akureyrar. Við Naustir var Krókeyri, sem nú er horfin, en þar var höfn, naust, og við það er bæjarheitið Naustir kennt. Orðið naust er skylt orðinu nór ‘skip’, sbr. latneska orðið fyrir skip navis.
Norðan Krókeyrar tók við Fjaran sem endaði á eyrinni, Akureyri, Akkerøen, eins og danskir kaupmenn kölluðu staðinn. Þegar leið á 19. öld voru gerðar lausabryggjur norður með Fjörunni sem teknar voru á land á vetrum, einkum vegna ísa, en vörur úr kaupskipum voru lengi fluttar í land á prömmum allt til þess Hoephnersbryggja var gerð um aldamótin 1900. Árið 1903 var hafinn undirbúningur að smíði bryggju á Torfunefi sem var að mestu lokið 1907 og á Torfunefsbryggju steig Friðrik VIII á land í ágúst 1907.
 
En því er þessi saga rakin hér, að hafnarmannvirki við innanverðan Eyjafjörð hafa stöðugt færst norðar, allt frá Festarkletti norður á Torfunef - og nú er hafskipabryggja Akureyrar á Oddeyrartanga. Um bryggjusmíði á síðara hluta 19. aldar og fram yfir aldamótin 1900 má lesa í þriðja kafla í Sögu Akureyrar II 1994 í ritstjórn Jóns Hjaltasonar sagnfræðings.
Tryggvi skrifar  þetta á Facebook en gaf  góðfúslegt leyfi  fyrir birtingu her.

Nýjast